Einföld skoðun bjargar lífi

Endurnýja þarf fjögur tæki og kostar hvert þeirra að minnsta …
Endurnýja þarf fjögur tæki og kostar hvert þeirra að minnsta kosti 30 milljónir króna.

Bleika slaufan, átaksverkefni Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum í konum, er tileinkuð brjóstakrabbameini í ár. Verkefnið hefst með formlegum hætti á morgun og stendur yfir út október en Bleika slaufan verður einungis seld fyrstu tvær vikurnar.

Söfnunarféð rennur óskert til endurnýjunar tækjabúnaðar til leitar að brjóstakrabbameini. Endurnýja þarf fjögur tæki og kostar hvert þeirra að minnsta kosti 30 milljónir króna. Einnig er fyrirhugað að taka í notkun nýtt boðunarkerfi til að fjölga konum í reglulegri skoðun.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein í íslenskum konum en um 90% kvenna sem greinast með meinið geta vænst þess að lifa lengur en fimm ár. Með skipulagðri leit, þar sem tekin er röntgenmynd af brjóstum, má finna brjóstakrabbamein á byrjunarstigi. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að lækka dánartíðnina vegna sjúkdómsins um allt að 40% með slíkri leit. „Einföld skoðun eins og brjóstamyndataka, sem tekur fimm til tíu mínútur, getur þannig bjargað lífi kvenna sem fá brjóstakrabbamein,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri hjá Krabbameinsfélaginu.

Hvetja konur til þess að mæta

Lára segir að um 68% kvenna á aldrinum 40-69 ára hafi mætt reglulega í leit að brjóstakrabbameini í fyrra og stefnan sé að ná tölunni upp í að minnsta kosti 80%. Um 87% kvenna í leitinni hafi verið ánægð með komuna, en framtaksleysi og tímaskortur séu helstu ástæður þess að konur mæti ekki reglulega í skoðun. „Siglufjarðarkonur eru duglegastar með um 86% mætingu og konur í Ólafsvík og á Húsavík eru skammt á eftir með 85% mætingu, en konur á höfuðborgarsvæðinu eru með slakari mætingu, sérstaklega konur í póstnúmeri 111, sem eru með 55% mætingu, og í póstnúmeri 101 og 116 með undir 60% mætingu,“ segir hún. Því sé ástæða til að ýta við þeim og öðrum sem ekki hafi mætt í reglubundna leit. Hún hvetur konur til þess að horfa á stuttmyndir um brjóstakrabbamein og kennslumyndband í brjóstaskoðun á bleikaslaufan.is.

Að sögn Láru er auðveldara að ná mjög góðum árangri á þessu sviði með því að nýta þá heilsuvernd sem er í boði. „Skipulög leit að brjóstakrabbameini er ein besta heilsuvernd sem okkur býðst,“ segir hún. „Því fyrr sem kona greinist með brjóstakrabbamein, þeim mun meiri líkur eru á lækningu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert