Kortlagði bestu norðurljósastaðina

Mynd af einum hópanna sem Árni hefur tekið að sér …
Mynd af einum hópanna sem Árni hefur tekið að sér leiðsögn fyrir. Norðurljósin sjást greinilega á myndinni. Ljósmynd/Árni Tryggvason

„Það eru eflaust einhver ferðaþjónustufyrirtæki búin að gera svona kort fyrir sína starfsmenn, en ég tel að hlutir sem varða almannaöryggi og almannaheill eigi ekki að vera einhver leynigögn,“ segir Árni Tryggvason leiðsögumaður sem birti í dag 28 staði í grennd við höfuðborgarsvæðið þar sem aðstæður eru góðar til að stoppa með hópa og skoða norðurljósin.

Sterk norðurljós hafa glatt Íslendinga og erlenda ferðamenn á undanförnum dögum. Sannkallað norðurljósaæði hefur hreinlega gripið um sig og í kvöld verður slökkt á götulýsingu á völdum stöðum í Reykjavík svo íbúar og gestir geti notið sýningarinnar sem spáð er á himni þegar aldimmt verður orðið í kvöld og í nótt.

Kort Árna kemur því á góðum tíma og rímar ágætlega við tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi sem brýndi fyrir skemmstu fyrir norðurljósaáhugamönnum að stöðva ekki bifreiðar sínar á vegum eða vegöxlum heldur finna sér hentugri staði sem sé víðs vegar að finna.

Frétt mbl.is: Slökkt á götuljósum vegna norðurljósa

„Ég er búinn að starfa í tvö ár sem leiðsögumaður meðfram störfum sem ljósmyndari og hönnuður,“ segir Árni. „Ég sé hvernig það hefur fjölgað í norðurljósaferðum og nokkrum sinnum hefur litlu munað að ég hafi straujað yfir kærulausa norðurljósaskoðendur, m.a. á Nesjavallavegi í fyrrakvöld.“

1. Viktarplanið á Kjalarnesi. Þar er lýsing, en stutt út …
1. Viktarplanið á Kjalarnesi. Þar er lýsing, en stutt út í móa. 2. Nýji golfskálinn á Kjalarnesi, þar er mjög gott bílastæði. 3. Við Strýthóla á Kjalarnesi er rúmt um alla. Ágætur afleggjari. 4. Ofan við Varmhóla í Kollafirði. Gamlar malarnámur með nægu plássi. 5. Við veginn upp af iðnaðarhverfinu hjá Kollafirði. Breiður fáfarinn vegur með mörgum hliðarafleggjurum. 6. Vegurinn vestan við Hrafnhóla. Þar myndar Esja frábæra umgjörð um ljósin. 7. Skammidalur. Fáfarinn en greiðfær vegur fyrir minni bíla. 8. Við Leirvogsvatn. 9. Bílastæðin hjá skíðasvæðinu Skálafelli. 10. Nokkur vinsæl útskot eru suður og austur af Sauðafelli. 11. Frábært nýtt og stórt plan rétt norðan við vegamótin á Kjósarskarðsleið. 12. Útskot við Stóralandstjörn. 13. Jeppafær afleggjari upp að Mjóavatni er frábær staður. 14. „Vörðuútskotið“ sem allir þekkja. 15. Nýtt og stórt bílastæði hjá nýju réttinni uppi á hæðinni vestur af Heiðarbæjum í Þingvallasveit. 16. Bílastæðið hjá Vinaskógi. 17. Bílastæðið norður af Öxará. Einnig er annar afleggjari rétt sunnan við brúnna sem á að vera öruggur. 18. Bílastæðið við Hvannagjá. Góður stígur er upp í gjánna sem myndar frábæra umgjörð. 19. Skógarhólar og jafnvel má aka inn að Svartagili. 20. Vatnskot og fl. afleggjarar með stæðum niður að vatni. 21. Við Vellankötlu. 22. Norðan við Hafravatn og Hafravatnsrétt. 23. Við afleggjarann að Langavatni. 24. Stórt plan austarlega á Nesjavallaleið. 25. Dyradalir en einnig eru gott útskot á brúninni þar vestan við og á hæðinni austan af Sköflungi. 26. Á hryggnum norður af vatnsgeymum (stuttur jeppaslóði) 28. Við grjótnámurnar í Þormóðsdal.

Árni vonast til þess að kortið verði til þess að benda leiðsögumönnum á örugga staði þar sem minni líkur eru á að fólk ani út á götu. „Því miður hef ég séð aðila frá ferðaþjónustufyrirtækjunum sem haga sér eins og fávitar,“ segir Árni. „Þegar ég er að keyra með mína farþega og þeir sjá ljós og vilja stoppa, þá segi ég að ég stoppi ekki fyrr en við séum komin á öruggan stað. Ég negli ekki beint út í kant. Það er bara ávísun á slys.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert