Ráðherra „þorir ekki“ að bíða úrskurðar

Frá framkvæmdum við stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar. Myndin er úr safni.
Frá framkvæmdum við stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar. Myndin er úr safni. mbl.is/Helgi Bjarnason

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, furðar sig á að keyra eigi í gegn frumvarp til að heimila lagningu raflína til stóriðju á Bakka þegar í ljós er komið að úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé að vænta fljótlega. Spyr hún hvort ráðherra þori ekki að bíða hans.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, hefur boðað frumvarp um nýtt framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykja- og Kröflulínu í kjölfar þess að úrskurðarnefndin stöðvaði allar framkvæmdir þangað til hún kveður upp úrskurð um kæru Landverndar á leyfinu.

Þetta sagði Björt vægast sagt gerræðislegt þegar hún tók málið upp í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar í dag. Með lagasetningu væri ráðherra að frysta lögbundna ferla og taka burt andmælarétt félagasamtaka eins og Landverndar. Það væri mikið áhyggjuefni.

Þá væri komið í ljós að áætlað væri að úrskurður nefndarinnar um framkvæmdaleyfið liggi fyrir í kringum 10.-14. október.

„Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort að ráðherra hæstvirtur sé farinn að hafa veður af því hvernig sá úrskurður hljómar ef hún þorir ekki að bíða eftir honum. Atvinnuveganefnd ætlar að taka út málið í dag og passa það að við bíðum ekki eftir þessum úrskurði,“ sagði Björt.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert