Rafrettur hafa ruglað okkur í ríminu

Bandarísk kona reykir rafsígarettu.
Bandarísk kona reykir rafsígarettu. AFP

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir og sérfræðingur í heimilislækningum, telur að rafsígarettur hafi ruglað okkur í ríminu. Ekki sé allt sem sýnist varðandi hættuna sem stafar af þeim og að fordómarnir séu miklir í kringum þær.

Þetta kom fram í máli hans á fjölmennum morgunverðarfundi á Grand Hótel í morgun sem samtökin Náum áttum, sem er samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál, boðuðu til. Yfirskrift fundarins var: Rafrettur og munntóbak – nýr lífsstíll eða óvægin markaðssetning?

Skaðleg áhrif ekki þekkt

Guðmundur benti á erlendar rannsóknir sem sýna að rafsígarettur séu 95% öruggari heilsu okkar en hefðbundnar sígarettur og að ekki séu efni til staðar í rafgufunni sem valdi heilsutjóni eða krabbameinsvaldandi áhrifum. Ekki séu þekkt skaðleg áhrif af innihaldi vökvans. Óljóst sé með skaðleg áhrif af einstaka bragðefni og því sé 5% fyrirvari á hættunni.

Guðmundur Karl Snæbjörnsson á morgunverðarfundinum.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson á morgunverðarfundinum. mbl.is/Ófeigur

Eiturefnin tekin út

Hann sagði að rafsígarettur væru ekki hollar og ekki fyr­ir þá sem ekki reykja en tók fram að þær væru miklu skaðlaus­ari en síga­rett­ur. Öll þau eiturefni sem eru í sígarettum sem drepa fólk hafi verið tekin út. Hann bætti við að samkvæmt sérfræðingum er nikótín álíka skaðlegt og kaffi .

Í fyrirlestrinum benti hann á niðurstöðu bandarískar rannsóknar sem sýnir að 4% barna í menntaskólum reykja sígarettur, 5,2% reykja sígarettur og rafrettur og 8,2% nota eingöngu rafrettur. Samkvæmt rannsókninni voru það 96% þeirra barna sem höfðu prófað rafrettu og sem ekki höfðu reykt, þau notuðu ekki nikótín í rafretturnar sínar. Augljóst mál væri að krakkarnir væru að leiðast frá hefðbundnum sígarettum með því að reykja frekar rafsígarettur.

Að sögn Guðmundar eru áhrif rafsígaretta þau að við losnum alfarið við reykingatengda sjúkdóma en afleiddur kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið vegna þeirra sjúkdóma er 40 milljarðar króna á ári.

90% geta ekki hætt að reykja

Lára G . Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands, hélt einnig fyrirlestur á morgunverðarfundinum og voru hún og Guðmundur stundum á öndverðum meiði.

Í máli hennar kom fram að 38 rannsóknir hafi sýnt að reykingarmenn sem notuðu rafsígarettur voru 28% ólíklegri til að hætta að reykja, óháð því hvort þeir hefðu áhuga á því eða ekki. „Meira en 90% þeirra sem reyna að hætta að reykja með rafsígarettum tekst það ekki,“ sagði hún.

Lára sagði að rannsóknir hafi verið rangtúlkaðar í fjölmiðlum þar sem því hefur verið haldið fram að rafsígarettur valdi niðursveiflu í reykingum. Engin merki séu um að rafsígarettur tengist lækkun á tíðni daglegra reykinga.

Lára G. Sigurðardóttir (til vinstri) á fundinum í morgun.
Lára G. Sigurðardóttir (til vinstri) á fundinum í morgun. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Nikótín ekki skaðlaust

Hún bætti við að nikótín væri ekki skaðlaust eins og Guðmundur hélt fram. Þvert á móti sé það sterkt ávanabindandi eiturefni og sé flokkað þannig hjá Umhverfisstofnun. Dæmi um þetta er að fóstur móður sem neytir nikótíns í einhverju formi á meðgöngu geti orðið fyrir varanlegri þroskaskerðingu.

Sjö krabbameinsvaldandi efni

Hún benti á að samkvæmt bandarískri rannsókn hefðu tveir þriðju hlutar þeirra sem sögðust nota rafsígarettur einnig hafa reykt. Einnig nefndi hún að sjö krabbameinsvaldandi efni, ásamt öðrum skaðlegum efnum, hefðu fundist í rafsígarettum. Í þeim væri heldur engin vatnsgufa eins og ranglega hafi verið haldið fram og að nikótínmagnið í þeim væri oft meira en gefið sé upp. 

Fjölmennt var á Grand Hótel í morgun.
Fjölmennt var á Grand Hótel í morgun. mbl.is/Ófeigur

Líklegri til sígarettureykinga

„Það hefur verið sýnt fram á að þeir unglingar sem nota rafsígarettur eru líklegri til að leiðast út í sígarettureykingar,“ sagði Lára. „Rafsígaretturnar eru bissness. Rannsóknir sýna að ef unglingar sjá auglýsingar með þeim eru þeir líklegri til að byrja að prófa.“

Hún nefndi að tóbaksfyrirtækin hefðu fjárfest í rafsígarettuiðnaðinum og að fjárhæðir í sem fari í kaup á rafsígarettuauglýsingum hafi hátt í tuttugufaldast á þremur árum.

„Yngsta kynslóðin er auðveld bráð nikótínfíknarinnar,“ sagði hún.

Rafsígarettur eru tóbak

Í máli Láru kom einnig fram að ungum börnum stafi bráð hætta af nikótínvökvum. Barn sem drekki nikótínvökva geti farið í öndunarstopp og dáið.

Hún kvaðst  hafa heyrt það sagt að rafsígarettur séu ekki tóbak. Því sagðist hún ekki sammála og nefndi að rafsígarettur innihaldi nikótín sem sé unnið úr sömu laufum og tóbak.

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Ófeigur

Andi ekki að sér reyk frá rafsígarettum

Lára sagði mikilvægt að krafa sé gerð um gæðavottorð á innihaldi rafrettuvökva til að vernda neytendur svo hægt sé að vita hverjir selja hann og hvað sé í efni vökvanna. Þannig þurfi að leyfa sölu á nikótínvökvum undir ströngu eftirliti.

Hún vill að rafsígarettur falli undir tóbaksvarnarlög til að vernda börnin og þá sem hafa ekki áhuga á að anda að sér nikótíni og öðrum óæskilegum efnum frá rafsígarettum. Einnig þurfi að tryggja að börn og unglingar hafi ekki aðgang að rafsígarettum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert