Snjallúr raska skólastarfi

Snjallúr sem eru nú notuð í auknum mæli af börnum á yngsta stigi í grunnskóla hafa raskað skólastarfi að undanförnu í Rimaskóla og hafa foreldrar verið beðnir um að halda slíkum úrum frá skólanum. Með úrunum er hægt að hlusta á það sem fer fram í kennslustofum sem Helgi Árnason skólastjóri segir ekki boðlegt fyrir kennara eða aðra foreldra.

„Foreldrar gætu því verið í vinnunni og fylgst með því hvað væri að gerast í skólastofunni. Ég er ekki alveg viss um að skólastjóri, kennarar eða aðrir foreldrar kæri sig um að sá möguleiki sé fyrir hendi,“ sagði Helgi í samtali við mbl.is fyrr í dag. 

Hann sendi því bréf til foreldra í vikunni þar sem þeir voru vinsamlega beðnir um að halda úrunum heima. Þá hafi borið á því að úrin hafi tekið athygli barna frá skólastarfinu sem gangi alls ekki í skólastarfinu.

Úrin, sem kosta um 10 þúsund krónur út úr búð, eru búin GPS staðsetningarbúnaði sem gerir foreldrum kleift að fylgjast nákvæmlega með ferðum barna sinna ásamt því að hlusta á samskipti þeirra. Margrét María Sigurðardóttir Umboðsmaður barna segir tæknina nýtilkomna og því sé það nýtilkomið að embættið skoði úrin sérstaklega en segir þó að hún veki upp spurningar um friðhelgi einkalífs barna.  

Hún segir: „mikilvægt að friðhelgi einkalífs barna sé virt og að börn viti og samþykki ef úrin eru notuð til eftirlits. Tæknin sé ný og því  sé brýnt að huga vandlega að því hvernig henni sé beitt og í hvaða tilgangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert