Ekki fleiri skjálftar í Kötlu síðan 2011

Jarðskjálftahrina stendur enn yfir í Kötlu en nokkuð hefur dregið úr virkni síðan klukkan 17 í dag. Tíðni skjálfta í dag er sú mesta sem hefur verið mæld í Kötlu síðan árið 2011 en allir skjálftarnir voru mjög grunnir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá vakthafandi sérfræðingum Veðurstofunnar. Þá hefur rennsli í Múlakvísl farið minnkandi síðan á þriðjudag.

Frá miðnætti hafa verið staðsettir rúmlega 100 skjálftar og var virkni einna mest milli klukkan 16:30 og 17:00 en stærsti skjálftinn var 3,0 að stærð. Rafleiðnin er nú 190 µS/cm sem þykir frekar hátt gildi miðað við árstíma.

Flogið var yfir Mýrdalsjökul 27. september og þá sáust engar verulegar breytingar á yfirborði jökulsins eða sigkötlum og GPS-mælingar sýna engar breytingar. Engin merki er heldur að sjá um gosóróa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert