Hefja innheimtu við Sólheimajökul

Landeigandinn Benedikt Bragason og Guðlaugur Magnússon frá Bergrisa takast í …
Landeigandinn Benedikt Bragason og Guðlaugur Magnússon frá Bergrisa takast í hendur við fyrstu skóflustunguna í gær.

Félagið Bergrisi ehf. og Landeigendafélagið Sólheimajökli hafa gert með sér samning um uppsetningu á stöðumælastaurum við rætur Sólheimajökuls en hingað til hefur ekki verið tekið gjald fyrir þá þjónustu. Fyrsta skóflustunga vegna verksins var tekin í gær að viðstöddum fulltrúum yfirvalda, þingmanni og ferðaþjónustuaðilum sem koma reglulega á svæðið.

Í tilkynningu kemur fram að búnaðurinn og lausnin byggist á íslensku hugviti fyrir íslenskar aðstæður sá sami og hefur verið settur upp á Þingvöllum og hefur reynst vel. Áætlað er að búnaðurinn fari í notkun á næstu mánuðum. Ekki verður byrjað að innheimta gjald af ferðaþjónustuaðilum fyrr en 1. maí 2017.

Búnaðurinn mun líkjast stuðlabergi og segir í tilkynningunni að þannig falli hann vel inn í landslagið. Þá sé hann gerður til að þola veðurskilyrði við Sólheimajökul allan ársins hring. Mögulegt verður að greiða með kredit- og debetkortum, Íslandskortinu og með QR-kóðalestri á forseldum bílastæðamiðum.

Guðlaugur Magnússon, framkvæmdastjóri Bergrisa, segir samninginn sýna það skref sem einkaaðilar þurfa að taka í tengslum við þjónustu við ferðamannaiðnaðinn sem og við bætta þjónustu við ferðamenn sem koma til landsins almennt. Guðlaugur segir enn fremur að það sé synd að allir þeir ferðamenn sem hingað hafa komið hafi ekki greitt álíka gjöld því þá væri uppbygging á stöðum sem þessum komin mun lengra.

Fleiri einkaaðilar hafa gert sams konar samning og Sólheimajökull sem verður sagt frá síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert