Símasambandslausir undir jökli

Mikil brennisteinslykt er úr Múlakvísl í dag en Margrét og …
Mikil brennisteinslykt er úr Múlakvísl í dag en Margrét og Páll búa þar rétt hjá. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Ég er ótrúlega róleg yfir þessu,“ segir Margrét Harðardóttir  um óróann í Kötlu. Margrét  rekur bú á Mýrum í Álftaveri, sem er í nágrenni Múlakvíslar ásamt Páli Eggertssyni manni sínum. Hún viðurkennir þó að hún sé ef til vill ekki jafn róleg vegna Páls, sem nú er að smala Álftaversafrétt uppi við Mýrdalsjökul ásamt nokkrum öðrum bændum úr sveitinni.

Frétt mbl.is: Öflug skjálftahrina í Kötlu

„Maður er ekki alveg í rónni,“ segir hún og „það er ekki óskastaða að karlarnir séu þarna í afrétt alveg uppi í jökli, en það er alla vegna olía á bílnum þannig að ég get keyrt af stað.“

Bændur eru enn að smala fé undir Mýrdalsjökli. Töluverð skjálftavirkni …
Bændur eru enn að smala fé undir Mýrdalsjökli. Töluverð skjálftavirkni hefur verið í Kötlu undanfarið og og hef­ur litakóða hennar nú verið breytt úr grænu í gult, sem merk­ir að eld­stöðin sýn­ir merki um virkni um­fram venju­legt ástand. mbl.is/RAX

Erfitt að láta vita ef Katla byrjar að gjósa

Margrét segir lamb hafa orðið eftir hjá gangnamönnunum í gær, sem þeir hafi stefnt á að sækja í dag með því að fara alveg upp í Mýrdalsjökul. Ekkert símasamband er á því svæði og því getur verið erfitt að láta menn vita ef Katla byrjar að gjósa. „Þeir geta væntanlega náð sambandi við byggð í gegnum tetra-stöð sem þeir eru með í bílnum, en þeir eru ekki alltaf í bílnum,“ segir hún og bætir við að stærstur hluti tíma þeirra fari í að hlaupa á eftir kindum.

Hún segir Mýrdælinga einnig vera að smala fé sunnanmegin við Mýrdalsjökul og eins séu ferðamenn víða á svæðinu. „Það eru ferðamenn um allt og maður veit í raun ekki hvar þeir allir eru.“

Hengir miða á hurðina og keyri burt

Margrét fylgist vel með óróanum í Kötlu og er með farsímann við höndina.   „Ég veit að maður fær  tilkynningu í símann,“ segir hún og kveðst vera 40 mínútur að keyra á Klaustur. „Ég er ekki komin á öruggt svæði fyrr en ég kem vestur fyrir Kúðafljót.“

Hún segir lítils undirbúnings vera þörf hjá sér berist tilkynning um gos eða jökulhlaup.

„Ég þarf ekki að undirbúa neitt. Ég hengi miðann [um að íbúar séu farnir]á hurðina og stekk svo bara út í bíl og keyri í burtu.“ Sauðfé þeirra á Mýrum er ýmist í túnum eða laust úti á mýrum og geti því væntanlega bjargað sér upp á vallendishóla og nærliggjandi hæðir ef það kemur jökulhlaup.

Eitthvað er af fólki er á nærliggjandi bæjum og kveðst Margrét gera ráð fyrir að það fylgist svolítið með hvert öðru berist tilkynning um að rýma svæðið, flestir karlanna séu þó upp í afréttinni en konurnar heima á bæjunum.

Upplifað bæði Grímsvatnagosið og Eyjafjallagosið

„Ég hef ekki látið þetta plaga mig í gegnum árin og við höfum haldið ró okkar. Ég held að fólk geri sig bara ruglað að vera alltaf stressað yfir þessu,“ segir Margrét sem hefur verið búsett á Mýrum frá árinu 1984. „Náttúra Íslands er fjölbreytileg og hún minnir stundum á sig.“

Hún nefnir í því sambandi að þau hafi upplifað bæði Grímsvatnagosið og Eyjafjallagosið. „Þannig að við erum orðin pínulítið sjóuð.“ Henni er líka sérstaklega minnisstætt  myrkrið sem fylgdi Eyjafjallagosinu. „Þá var niðamyrkur hérna fram yfir hádegi og allt var svo grátt í ösku þegar birti. Það er mjög sérstakt að hafa upplifað þetta myrkur og þetta er eitthvað sem maður gleymir aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert