Fann fegurðina í ruslinu í Barcelona

Magnús og Þuríður Helga ásamt börnum sínum, Heklu Sólveigu og …
Magnús og Þuríður Helga ásamt börnum sínum, Heklu Sólveigu og tvíburunum Helga Hrafni og Ingunni Kríu Þóreyju. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Reykjavík, Barcelona, Akureyri. Magnús Helgason myndlistarmaður og fjölskylda hans hafa verið á faraldsfæti undanfarið. Viðarplötur, gler, flísar og gömul húsgögn ganga í endurnýjun lífdaga í verkum hans. Í þeim efnum hljóp á snærið hjá honum í Barcelona, þar sem ruslagámarnir reyndust gjöfulli en bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Í sorpinu er fátt um gull sem glóir eins og flestir vita. Þar hefur Magnús Helgason myndlistarmaður þó oft og einatt fundið sitthvað sem fyrir hann er gulls ígildi. Jafnt í Reykjavík, Barcelona og Akureyri sem og á fleiri stöðum ef því er að skipta. Magnús heillaðist af nytjalist á námsárum sínum kringum aldamótin í fjöltæknideildinni í AKI, listaháskólanum í Enschede í Hollandi. Að vísu í óhefðbundnum skilningi hugtaksins því hann notar í málverk sín alls konar hluti af haugunum – og þá sem hann nær að fanga áður en þeir komast á áfangastað.

Viðarplötur, gler, flísar og gömul húsgögn ganga meðal annars í endurnýjun lífdaga í verkum Magnúsar. Svo leggst honum líka ýmislegt til úr náttúrunni. Og púslar öllu saman eftir því sem sköpunargáfan býður. „Blönduð tækni,“ útskýrir hann. „Í skólanum lærði ég einnig ljósmyndun, kvikmyndagerð með 8 og 16 mm tökuvélum og vann í nokkur ár fyrir hrun með Jóhanni Jóhannssyni tónskáldi við að gera bakgrunna fyrir tónleika.“

Síðan Magnús lauk námi hefur hann að mestu leyti verið sjálfstætt starfandi listamaður með áherslu á málverkið. Þar til í fyrra var hann líka safnfulltrúi í hlutastarfi í Listasafni ASÍ. „Þá kom ævintýraþráin yfir mig og konu mína, Þuríði Helgu Kristjánsdóttur, og við ákváðum að taka okkur upp frá Vesturbæ Reykjavíkur og flytjast með börnin okkar þrjú til Barcelona.“

Gjöfulir ruslagámar

Þeim þótti tiltækið að vísu svolítið djarft, börnin ung að árum, þriggja ára tvíburar og níu ára dóttir, en kappkostuðu að búa sem best í haginn, tryggja sér húsnæði og skólavist fyrir börnin áður en þau flugu utan til eins árs dvalar. „Okkur langaði einfaldlega til að brjóta upp hversdagsleikann og prófa eitthvað nýtt. Veður, verðlag og blómlegt listalíf áttu mikinn þátt í að við völdum Barcelona. Þuríður Helga, sem eins og ég er listmenntuð frá AKI, fór í nám í umhverfisfræði en ég fékk inni í vinnustofu þar sem fleiri listamenn höfðu aðstöðu. Markmiðið var að einbeita mér að málverkum fyrir sýningu sem mér hafði verið boðið að halda í Zürich í Sviss snemma á næsta ári,“ segir Magnús.

Listamannalaun vegna þeirrar sýningar gerðu fjölskyldunni kleift að halda á vit ævintýranna, en einnig segir hann þau hjónin hafa átt svolítið sparifé.

„Helsta áhyggjuefni mitt var að byrja með tóma vinnustofu og finna ekki hentugt og snyrtilegt rusl, ef svo má segja. Þær áhyggjur reyndust óþarfar því í borginni tíðkast að skilja eftir nýtanlega hluti við ruslagáma og því gekk efnisöflunin alveg ljómandi vel. Auk þess komst ég í samband við rúðuframleiðanda sem seldi mér ósóttar rúður á slikk,“ segir Magnús, sem keypti sér rafmagnsreiðhjól og hjólaði vítt og breitt um borgina í leit að gjöfulum ruslagámum.

Regnbogar eru hundamatur

Hann var í essinu sínu þegar á fjörur hans rak gamlar eldhúsinnréttingar og dúkkuhús. „Sérstaklega innréttingar þar sem smiðirnir höfðu krotað á ýmislegt sér til minnis. Slíkir hlutir segja sögu sem ekki er á færi listamannsins að búa til. Dúkkuhúsin eru einstakar gersemar,“ segir hann.

Skrúfjárn, heftibyssa, hjólsög, límband, litúði, hamar og naglar eru hans helstu verkfæri og viðarplötur úr notuðum innréttingum koma í stað hefðbundins striga málarans.

Magnús gefur flestum verkum sínum nafn. Guð fær greitt í dollurum og Regnbogar eru hundamatur eru dæmi um nafngiftirnar. Spurður út í fagurfræðilegt gildi verkanna grípur hann til þeirrar samlíkingar að garðyrkjumaðurinn búi ekki til blómin. Sjálfur kveðst hann alltaf vera að leita að fegurðinni en hún sé afstæð og ekki meitluð í stein. „Ég sé fegurðina í ruslinu. Efniviðurinn sem ég brýt niður í frumeindir ræður því hvernig verkið verður. Eitt leiðir af öðru. Ég finn ekki endilega græna spýtu í dag og rauða á morgun, svo dæmi sé tekið.“

Vinnustofan í Barcelona var í opnu rými þar sem hann vann með fólki sem talaði litla sem enga ensku. „Fyrirkomulagið var ákveðin áskorun fyrir mig því mér hefur alltaf fallið best að vinna einn. Hins vegar kom það ekki að sök því flestir hinna listamannanna unnu aðra vinnu á daginn og notuðu vinnustofurnar á kvöldin þegar ég var kominn heim í faðm fjölskyldunnar.“

Tár á hvarmi

Fjölskyldulífið þar ytra segir hann hafa verið ljúft og rólegt og gott tækifæri til að njóta samveru. Aukinheldur hafi Katalóníubúar verið afskaplega vinsamlegir og viðkunnanlegir. „Við fórum mikið á listasöfn og -sýningar, nutum götulistarinnar, sem var alltumlykjandi, og hlustuðum varla á fréttir frá Íslandi. Þrátt fyrir tungumálaerfiðleika leið börnunum vel í skólanum. Þar var haldið heljarinnar kveðjupartí áður en við fórum til Íslands, foreldrarnir mættu með bakkelsi og gáfu þeim gjafir í kveðjuskyni og tár féllu af hvarmi. “

Magnús viðurkennir að katalónsku listamönnunum á vinnustofunni, sem flestir voru í hefðbundnari kantinum hvað listina áhrærði, hafi þótt stórfurðulegt að hann hirti drasl af götunni og gerði úr því listaverk. „Í listrænu tilliti var ég því svolítið einmana. Þótt við fjölskyldan söknum Barcelona svolítið finnst mér gott að vera kominn heim í það listræna umhverfi sem ég er alinn upp í,“ segir hann.

Heimkomin skipti fjölskyldan aftur um umhverfi og settist að á Akureyri, heimabæ Þuríðar Helgu, þar sem henni bauðst staða framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar. Þótt Magnús sé ekki enn búinn að fá almennilega vinnustofu og verkin á sýninguna í Zürich séu í höfn situr hann ekki auðum höndum. „Ég er að vinna málverk fyrir sýningu í Bókasafni Háskólans á Akureyri í næsta mánuði, og líka fyrir samsýningu í Listasafni Akureyrar í vor. Öfugt við Barcelona er ekki hægt að ganga að því vísu að finna hentugan efnivið við ruslatunnurnar, enda Akureyri einstaklega snyrtilegur bær. „Uppskeran var líka rýr þegar ég ók um nærliggjandi sveitir og kíkti í ruslagámana við þjóðveginn,“ segir Magnús, sem engu að síður kann prýðilega við sig fyrir norðan.

Geómetrísk form. American Express nefnist þetta verk Magnúsar.
Geómetrísk form. American Express nefnist þetta verk Magnúsar.
Magnús er í bráðabirgðahúsnæði með vinnustofu sína en leitar hentugra …
Magnús er í bráðabirgðahúsnæði með vinnustofu sína en leitar hentugra húsnæðis á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Verk eftir Magnús Helgason.
Verk eftir Magnús Helgason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert