Flogið með endurvarpa á Hlöðufell

Um þessar mundir vinnur Slysavarnarfélagið Landsbjörg að endurnýjun endurvarpa fyrir VHF-talstöðvakerfið á hálendinu. Markmið með framkvæmdunum er að viðhalda og bæta fjarskiptasamband og auka þannig öryggi ferðalanga, bæta samskipti björgunarfólks og leitarflokka á hálendinu og fækka hugsanlega óþarfa útköllum. 

Fyrsti endurnýjaði endurvarpinn var í gær fluttur með þyrlu á tind Hlöðufells sunnan Langjökuls, eins og sjá má í meðfylgjandi mynskeiði. 

Landsbjörg gerir ráð fyrir að á þessu ári verði endurnýjaðir 16 af þeim 60 endurvörpum sem félagið hefur sett upp og viðhaldið á síðustu árum. Kostnaður við endurnýjunina í ár nemur 28 milljónum króna, en Pokasjóður veitti 24 milljónir króna í verkefnið.

Endurvarparnir eru drifnir áfram af sólarorku og því er viðhaldskostnaður þeirra lítill. Kostnaðurinn við endurnýjun hvers endurvarpa og að koma honum á sinn stað nemur hins vegar einni til tveimur milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert