Framsókn falli undir menningarminjar

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ef ég má vera galgopaleg þá vil ég segja það að ég tel Framsóknarflokkinn falla undir menningarminjar þar sem hann er orðinn 100 ára,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Hann á því að vera friðhelgur,“ sagði Sigrún og uppskar lófaklapp og hlátrasköll viðstaddra framsóknarmanna er nú sitja flokksþing í Háskólabíói.

Sigrún segir lúxusvandamál að þurfa að velja á milli þeirra Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs í formannskjörinu á morgun og telur hún nýtt og spennandi tímabil fram undan. Þá stiklaði hún á stóru um verkefni ráðuneytis síns á kjörtímabilinu og vakti sérstaka athygli á auðlindaþætti þess sem eigi það til að gleymast.

„Í síðustu viku kom fram að við værum efst á lista sameinuðu þjóðanna um 17 markmið þeirra er snúa að lýðheilsu,“ sagði Sigrún meðal annars og þá kynnti hún verkefni sem hún hyggst kynna í ríkisstjórn á þriðjudag um kortlagningu á uppbyggingu innviða á helstu ferðamannastöðum um landið.

Þá nefndi hún jafnframt Parísarsamninginn sem hún segir marka tímamót og Ísland standi öðrum löndum framar hvað varðar umhverfismál, sjá þurfi til þess að svo verði áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert