„Samfélagsleg skylda”

„Mér finnst mjög mikilvægt að tala við nemendur um myndina. …
„Mér finnst mjög mikilvægt að tala við nemendur um myndina. Í rauninni samfélagsleg skylda mín. Sérstaklega um þetta efni,” segir Baltasar Kormákur sem leikstýrði Eiðnum sem fjallar um eiturlyfjaneyslu ungrar konu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér finnst mjög mikilvægt að tala við nemendur um myndina. Í rauninni samfélagsleg skylda mín. Sérstaklega um þetta efni. Þetta er málefni snertir okkur öll. Daglega birtast fréttir um ofneyslu ungs fólks í fjölmiðlum,“ segir Baltasar Kormákur leikstjóri en hann spjallaði við nemendur í skapandi skrifum og í fjölmiðlafræði í Fjölbrautaskóla Garðabæjar í gærmorgun um nýjustu kvikmynd sína Eiðinn. Í stuttu máli fjallar Eiðurinn um lækninn Finn sem sér á eftir dóttur sinni í neyslu sem er í sambandi við dópsala og baráttu hans um að koma dótturinni á réttan kjöl. 

Það stóð ekki á nemendum, sem voru tæplega 50 talsins, að spyrja leikstjórann spjörunum úr sem svaraði af einurð og tók sér góðan tíma til að spjalla. Nemendur voru áhugasamir og málefnalegir og spurðu m.a. hvernig  tökunum var háttað, hvernig það hafi verið að leikstýra mynd sem hann léki sjálfur í, hvernig leikarar voru valdir, hvers vegna hann hafi breytt enda myndarinnar eftir frumsýningu og svo mætti lengi áfram telja.

Garðabær kom talsvert við sögu í þessu létta spjalli eins og gefur að skilja. Baltasar vísaði meðal annars til þess að dópsalinn í myndinni væri úr Garðabæ og uppskar hlátur fyrir vikið. Að auki er myndin tekin upp í einu fallegasta húsi Garðabæjar eftir arkitektinn Högnu Sigurðardóttur en húsið er sögusvið heimilis Finns í kvikmyndinni.  

Nemendur voru óhræddir við að spyrja leikstjórann spjörunum úr.
Nemendur voru óhræddir við að spyrja leikstjórann spjörunum úr. Golli / Kjartan Þorbjörnsson


 

Erfitt að fjalla um erfiða hluti

Hvað var erfiðast? var spurning frá einum nemanda. „Það var erfitt að fjalla um erfiða hluti, fíkniefnaneyslu ungs fólks og fara í gegnum allar tilfinningar sem tengjast því. Þó það sé erfitt þá verðum við samt að horfast í augu við þetta. Það þýðir ekki að líta undan. Við megum það ekki því þetta er svo algengt og finnst í öllum fjölskyldum,” segir Baltasar.  

Spurning frá öðrum nemanda laut að því hvort það væri munur á að leikstýra faglærðum eða ófaglærðum leikara í myndinni og vísaði til Guðrúnar Sesselju Arn­ar­dótt­ur hæsta­rétt­ar­lögmanns sem fer með eitt hlutverk rannsóknarlögreglu í myndinni. Baltasar sagði að það hafi gengið mjög vel því hann þekkti hana persónulega auk þess hafi hann alltaf haft í huga leikkonu í þetta hlutverkið sem líktist henni. Þar af leiðandi hafi hún smellpassað í hlutverkið enda ætti hún auðvelt með að vera ísköld og ákveðin í fasi en búa samt yfir hlýleika. Nemandinn gat ekki annað en verið sammála þessu enda móðir hans til umræðu.  

Vildi ekki leikstýra bílamyndum sem gefa vel í aðra hönd 

Að sjálfsögðu voru nemendur einnig forvitnir um kvikmyndalífið í Hollywood en Baltasar hefur leikstýrt ófáum stórmyndum í Hollywood, Everest er sú nýjasta. Baltasar standa allar dyr opnar í Hollywood en hann kýs frekar að leikstýra myndum sem fjalla um íslenskan veruleika með einhverjum hætti umfram annan, að minnsta kosti í bili.

„Ég var beðinn um að leikstýra Fast and the Furious 7 og 8, en ég sagði nei. Ég kann ekki að leikstýra bílum,” sagði Baltasar og brosti. Það fór kliður um salinn þegar hann lét þessi orð falla. Og hann bætti við: „Þetta var verkefni í kringum 250 milljónir dollara.“ Ekki var laust við að glott færðist yfir andlit margra. Baltasar útskýrði þetta frekar og sagði að helsti munurinn á kvikmyndabransanum í Hollywood og á Íslandi væri peningar. Yfirbyggingin í Hollywood er talsvert meiri en hér heima og stundum getur reynst erfiðara að stýra leikurum sem eru með svimandi há laun. „Það er samt ekki þannig að ég neiti að fá stórt hjólhýsi bara fyrir mig einan þegar ég er í tökum úti. Ég var meira að segja með arin síðast sem ég náði varla að nota því ég var alltaf að vinna,” segir hann og hlær.

Baltasar bendir á að mikil vinna felist í því að taka upp kvikmynd og dagarnir séu alla jafna mjög langir og krefjandi. Þar af leiðandi segir hann algjört lykilatriði að tengjast verkefninu vel sem hann fæst við. „Maður þarf að hafa ákveðna grunntilfinningu fyrir því svo maður hafi innri orku til að knýja verkefnið áfram því verkefnið verður erfitt. Þess vegna er mikilvægt að fjalla um eitthvað sem skiptir mann máli eins og söguna í Eiðnum,” segir Baltasar. Þetta er ein ástæða fyrir því að hann kýs að fjalla um íslenskan veruleika í verkum sínum fram yfir bandarískan.

Í þessu samhengi bendir hann á að ef hann væri t.d. að fylgja eftir bandarískri bílamynd sæti hann varla á þessu sviði og ræddi um neyslu eiturlyfja við framhaldsskólanema. „Mér finnst mikilvægara að koma hingað og tala við ykkur. Það skiptir mig máli,” segir hann af þunga.   

Kjartani Árna Kolbeinssyni nemanda í fjölmiðlafræði á félagsfræðibraut FG þótti …
Kjartani Árna Kolbeinssyni nemanda í fjölmiðlafræði á félagsfræðibraut FG þótti forvitnilegt að heyra svör leikstjórans. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Útskýrir af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru

„Mér finnst gaman að heyra hans skoðanir á myndinni því maður horfir á hana með mismunandi augum. Hann hefur mjög faglegar skoðanir og segir af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru,” segir Kjartan Árni Kolbeinsson nemandi í fjölmiðlafræði á félagsfræðibraut FG. Kjartan spurði Baltasar m.a. hvers vegna hann vildi hafa myndina svona raunverulega. „Hann [Baltasar] talaði einmitt um að hann vildi gera allt sem hann gæti til að hafa hana raunverulega svo fólk gæti sett sig í þessi spor. Mér fannst það skila sér mjög vel í myndinni,” segir hann.

Hann bendir einnig á að honum þyki líka gaman að Baltasar, sem hefur náð mjög langt og hafi afrekað miklu, skuli sýna nemendunum áhuga að vilja koma og spjalla. Hrafnhildur Emma Björnsdóttir nemandi í skapandi skrifum á leiklistarbraut tekur í sama streng. 

Hrafnhildur Emma Björnsdóttir nemandi í skapandi skrifum á leiklistarbraut í …
Hrafnhildur Emma Björnsdóttir nemandi í skapandi skrifum á leiklistarbraut í FG. Þótti áhugavert að sjá hvernig námið á leiklistarbraut nýtist í raunveruleikanum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 

„Mér finnst þetta rosalega áhugavert. Það er gaman að tala við hann. Hann er meðtækilegur og almennilegur og svarar öllum spurningunum mjög vel. Hann talaði um alls konar sem við höfum verið að læra til dæmis hvernig við vinnum með kveikjur, handritsgerð, hvað veitir innblástur og svoleiðis. Það er svo áhugavert að sjá að það sem maður hefur verið að læra er í alvörunni gert með þessum hætti. Það er ekki alltaf þannig þegar maður er í skóla,” segir Hrafnhildur Emma. 

Hún segist hafa grætt mikið á heimsókn Baltasars en þessi ákveðna unga kona er þegar búin að ákveða hvert hún stefnir í framtíðinni. Hún ætlar að verða leikkona og ætlar að þreyta inntökupróf í Leiklistarháskólanum eftir ár en hún lýkur stúdentsprófi á þremur árum. „Þetta hefur verið draumur lengi og gaman að geta haldið í hann,” segir hún og brosir. Hrafnhildur bendir á að í náminu á leiklistarbraut FG hafi hún lært mjög mikið. Þessa dagana er hún ásamt fleirum nemendum á leiklistarbraut að undirbúa leikritið Kalli og súkkulaðiverksmiðjan sem verður sett upp eftir áramót.

Þeir nemendur sem blaðamaður ræddi við voru flestir sammála um að myndin drægi upp raunsanna mynd. Hún hefði ákveðið forvarnargildi um mikilvægi þess að halda sig frá neyslu. 

Komið í heimsókn síðasta áratuginn  

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Baltasar mætir í FG og spjallar við nemendur um nýjustu kvikmynd sína. Hann hefur komið reglulega í heimsókn í FG undanfarin áratug frá því Aðalbjörg Helgadóttir félagsfræði kennari hafði fyrst samband fyrir um áratug. 

Aðalbjörg segir það gefa nemendum mikið að fá tækifæri til að spjalla við leikstjórann um verk sitt. Heimsóknirnar hafa alltaf verið ákaflega vel heppnaðar og ekki útlit fyrir að breyting verði þar á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert