Tugum sagt upp í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Tugum starfsmanna var sagt upp störfum hjá fiskvinnslufyrirtækinu Frostfiski í Þorlákshöfn í gær. Greint var frá þessu á vef Hafnarfrétta en Steingrímur Leifsson, forstjóri Frostfisks, staðfestir í samtali við mbl.is að 33-34 starfsmönnum hafi verið sagt upp. Hann segir íslensku krónuna vera versta óvininn um þessar mundir.

„Þetta er nú bara vegna þess að íslenska krónan er svo sterk og við missum bara mjög mikið af okkar tekjum og þurfum að aðlaga okkar rekstur að því,“ segir Steingrímur, spurður um ástæður uppsagnanna.

Hann segir fyrirtækið missa tekjur á sama tíma og launahækkanir eru miklar og því sé nauðsynlegt að bregðast við. „Við erum bara svona að draga saman seglin og eftir þessar breytingar verða 75 manns starfandi í Þorlákshöfn,“ segir Steingrímur en fyrirtækið mun fækka línum og minnka framleiðslu meðan krónan er svo sterk. Í frétt Hafnarfrétta segir að Frostfiskur sé fjölmennasta fiskvinnslufyrirtækið í Þorlákshöfn en það kaupir allan sinn fisk á mörkuðum.

Segir hann miður að þurfa að taka svona ákvörðun en Vinnumálastofnun er á svæðinu og er tilbúin að aðstoða fólkið við að komast áfram á vinnumarkað að sögn Steingríms. Hann segir mikla vöntun á starfsfólki á svæðinu, þá sérstaklega í þjónustugreinum, og telur líklegt að flestir fái vinnu.

Þá segir hann að uppsagnirnar ættu ekki að koma neinum í opna skjöldu. „Það er búið að vera að horfa á íslensku krónuna og Bretland ganga úr Evrópusambandinu, það þýðir það að tekjur hrynja af útflutningsgreinunum og það á ekki að koma neinum á óvart,“ útskýrir Steingrímur.

Hann telur líklegt að fleiri fiskvinnslufyrirtæki þurfi einnig að draga saman seglin vegna aukins styrks íslensku krónunnar. „Menn eru bara ringlaðir held ég og kannski ekki búnir að átta sig á því hvað tekjumissirinn er mikill og það þarf bara að aðlaga sig að því, fyrr en seinna, og það er það sem við erum að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert