Vatnaskil í íslenskri hljóðritun

Hópmynd frá móttökunni í stúdíóklasanum á Eyjaslóð.
Hópmynd frá móttökunni í stúdíóklasanum á Eyjaslóð. mbl.is/Ófeigur

Samtónn ásamt fleiri samtökum í tónlistariðnaðinum efndi til fagnaðar í tilefni nýs frumvarps um endurgreiðslur vegna hljóðritunar í stúdíóklasanum á Eyjaslóð 7 kl. 18 dag. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hélt erindi um úrræðið, útfærslur þess og áhrif.

Frumvarpið sem lagt var fyrir Alþingi á fyrsta degi septembermánaðar kveður á um að tón­list­ar­menn fái end­ur­greidd­ 25% af öll­um kostnaði vegna hljóðrit­un­ar á tónlist sinni. Gert er ráð fyr­ir að lög­in taki gildi um næstu ára­mót og gildi í fimm ár.

Endurgreiðslan verður gjaldgeng þegar 80% kostnaðar falla til á Íslandi og er þá heim­ilt að end­ur­greiða 25% af kostnaðinum sem fell­ur til á Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Hámarksgreiðsla er 30 milljónir yfir þriggja ára tímabil og gert er ráð fyrir að kostnaður úrræðisins nemi 81 milljón króna á ári. Er þá miðað við 130 umsóknir á ári og að meðalkostnaður við hljóðritun sé 2,5 milljónir króna, samkvæmt mati starfshóps ráðuneytisins. 

Styrkir innviði tónlistariðnaðarins

Jakob Frímann Magnússon, formaður stjórn­ar Fé­lags tón­skálda og texta­höf­unda, telur að úrræðið sporni við dapurlegri þróun hljóðritunar á Íslandi og gæti laðað erlend verkefni til landsins í líkingu við sambærileg úrræði fyrir kvikmyndagerðina.  

„Það er verið að fagna ákveðnum vatnaskilum í heimi upptökuvera og hljóðritunar á Íslandi sem hafa staðið höllum fæti eftir að netið kippti fæti undan hljómplötusölu hér sem annars staðar. Þetta skapar möguleika þess að kalla hingað heim erlend verkefni eins í kvikmyndaiðnaðinum,“ sagði Jakob Frímann í samtali við mbl.is. 

Hann segir að nýliðun hafi verið stefnt í hættu vegna þess að íslenskir tónlistarmenn leiti út eftir að hafa notið stuðnings á Íslandi og úrræðin séu því mikilvæg til að fá arð fjárfestingarinnar aftur heim. 

Þetta er ein af nokkrum mikilvægum aðgerðum sem núverandi stjórnvöld hafa gripið til í þágu greinarinnar sem er sá angi menningarlífsins sem flestum utan Íslands er best kunnugt um. Þetta er liður í því að styrkja innviði tónlistariðnaðarins en vandamálið hefur verið að íslenskir tónlistarmenn hafa farið úr landi eftir að hafa notið stoðkerfisins hér heima og þannig fer Ísland á mis við allar tekjur sem hljótast af fjárfestingunni.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir hélt tölu fyrir móttökugesti
Ragnheiður Elín Árnadóttir hélt tölu fyrir móttökugesti mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert