FA telur loforð um þjóðarsátt svikið

Frá undirritun búvörusamninga 30. september síðastliðinn.
Frá undirritun búvörusamninga 30. september síðastliðinn. mbl.is/Styrmir Kári

Félag atvinnurekenda (FA) á ekki fulltrúa í nýskipuðum samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga. FA hefur ritað Gunnari Braga Sveinssyni, landbúnaðarráðherra, bréf þar sem farið er fram á að skipan samráðshópsins verði endurskoðuð.

Sjá frétt mbl.is: Búið að skipa formann sam­ráðshóps

Í sam­ræmi við búvörulög­in hef­ur sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra óskað eft­ir að eft­ir­far­andi aðilar til­nefni full­trúa í 7 manna sam­ráðshóp, þ.e.  Alþýðusam­band Íslands/​BSRB, Bænda­sam­tök Íslands (2 full­trú­ar), Neyt­enda­sam­tök­in, Sam­tök afurðastöðva, Sam­tök at­vinnu­lífs­ins.

„Við erum augljóslega hissa á þessu í framhaldi af okkar samtölum við formann atvinnuveganefndar þar sem var gengið út frá því að við ættum aðild að þessu þjóðarsamtali eins og það er kallað,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í samtali við mbl.is.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Loforð um þjóðarsamtal svikið

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður atvinnuveganefndar. Í bréfi FA til landbúnaðarráðherra segir meðal annars að „starfshópurinn um endurskoðun búvörusamninga átti, samkvæmt opinberum yfirlýsingum formanns atvinnuveganefndar Alþingis, að stuðla að „þjóðarsamtali“ og „þjóðarsátt“ um mótun landbúnaðarstefnu til framtíðar. Í samtölum formannsins við Félag atvinnurekenda á meðan nýsamþykkt búvörulagafrumvarp var til umfjöllunar í nefndinni kom ítrekað fram að hann gerði ráð fyrir að FA myndi eiga aðild að þeim samráðsvettvangi sem nefndin vildi lögfesta að yrði settur á laggirnar til þess að kalla sem flest sjónarmið að borðinu og ná sem breiðastri samstöðu um umgjörð landbúnaðarstefnunnar. Í áliti meirihluta nefndarinnar kom fram að helztu hagsmunaaðilar ættu að eiga aðild að samráðshópnum. Þá var því beint til ráðherra að tryggja samráðshópnum viðeigandi starfsskilyrði.“

Skipan samráðshópsins veldur í þessu ljósi FA verulegum vonbrigðum og segir Ólafur að félagið geti ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að loforðið um þjóðarsamtal hafi verið svikið. „Við vorum að sjálfsögðu reiðubúin til að ganga til þess samstarfs af heilindum.“

Ólafur segir að ákvörðunin hafi þó að sumu leyti ekki komið sérstaklega á óvart. „Okkar málflutningur um frelsi í lanbúnaðarmálum og okkar gagnrýni á það haftakerfi sem hefur verið viðhaldið hérna hefur augljóslega farið í taugarnar á landbúnaðarráðherra.“

Eini lögbundni umsagnaraðilinn sem ekki á aðild

FA gagnrýnir jafnframt að félagið er eini lögbundni umsagnaraðilinn samkvæmt búvörulögum sem á ekki sæti í samráðshópnum. „FA er samkvæmt 87. grein búvörulaga lögbundinn umsagnaraðili um tillögur ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, ásamt Bændasamtökunum, Neytendasamtökunum og Samtökum verzlunar og þjónustu, sem eru aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins,“ segir í bréfinu.

„Ef landbúnaðarráðherra ætlar að uppfylla það loforð að allir helstu hagsmunaaðilar séu kallaðir að borðinu verður Félag atvinnurekenda að vera þar á meðal. Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla. Það eru tvenn samtök sem gæta hagsmuna fyrirtækjanna í landinu, Samtök atvinnulífsins og þeirra undirsamtök og svo er það Félag atvinnurekenda sem gæta hagsmuna fyrirtækja sem flest hver eru ekki í SA,“ segir Ólafur, sem telur því ríka þörf á að Félag atvinnurekenda sé hluti af starfshópnum.

Félag atvinnurekenda vonast eftir svari frá landbúnaðarráðherra sem fyrst. „Hann hefur ekki marga daga til að svara á meðan hann er ráðherra, en við væntum málefnalegs svars og að þetta verði leiðrétt.“

Hér má lesa bréf FA til landbúnaðarráðherra í heild sinni. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert