Fylgst vel með föngum í hléi frá afplánun

Hrísey. Mynd úr safni. Eiríkur Fannar fékk fimm ára dóm …
Hrísey. Mynd úr safni. Eiríkur Fannar fékk fimm ára dóm fyrir hrottafengna nauðgun á franskri stúlku í Hrísey síðasta sumar og er nú í hléi frá afplánun. Fangelsismálastjóri segir slíkt hlé aðeins veitt í algjörum undantekningatilvikum. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Winkel fangelsismálastjóri segist ekki geta tjáð sig sérstaklega um aðstæður Eiríks Fannars Traustasonar, sem fékk hlé á afplánun nauðgunardóms, og fjallað var um í fjölmiðlum í gær. Hlé á afplánun sé hins vegar aðeins veitt í algjörum undantekningartilvikum og Fangelsismálastofnun hafi aðeins nokkrum sinnum veitt föngum slíkt leyfi.

Eiríkur Fannar var í júní dæmdur í Hæstarétti í fimm ára fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun á franskri stúlku í Hrísey síðasta sumar og greindi RÚV frá því í gær að að hann sé einnig grunaður um að hafa misnotað 13 ára stúlku um nokkurra mánaða skeið, sama sumar.

„Heimilt er að veita hlé á afplánun ef mjög sérstakar ástæður mæla með því og hefur Fangelsismálastofnun veitt hlé nokkrum sinnum svo sem vegna mjög alvarlegra veikinda eða dauðsfalls í fjölskyldu fanga,“ segir í skriflegu svari Páls.  Mjög alvarlegar aðstæður séu fyrir hendi þegar slíkt hlé sé veitt, enda sé það aðeins veitt í algjörum undantekningatilvikum.

„Í þeim tilvikum er Fangelsismálastofnun samþykkir hlé á afplánun fanga eru aðstæður viðkomandi mjög alvarlegar. Það á við án undantekninga. Eðli máls samkvæmt eru þessi mál mjög viðkvæm og varða persónulega hagsmuni. Um slík mál má Fangelsismálastofnun ekki tjá sig,“ segir Páll.

Páll segir hins vegar í samtali við mbl.is að það sé alrangt að þeir sem fái slíkt hlé frá afplánun séu án alls eftirlits, líkt og haldið hefur verið fram.

„Það er aldeilis ekki þannig að viðkomandi sé bara sleppt lausum og svo sé bara ekkert eftirlit. Við setjum mjög ströng skilyrði og það er fylgst mjög vel með því að leyfinu, eða hléinu, sé ráðstafað í samræmi við tilgang þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert