„Hverfur í storminum í kringum Trump“

Frá fyrirlestri Silju Báru í dag.
Frá fyrirlestri Silju Báru í dag. Ljósmynd/Ljósmyndsafn Reykjavíkur

„Hvað erum við að horfa á í dag? Við erum komin með utangarðsmann sem flýgur í gegn hjá Repúblikanaflokknum sem enginn hefði trúað, og þar á meðal ég, að myndi ná svona langt. Hann hafði ekki einu sinni málefnaforsendur til þess að komast svona langt,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, á fyrirlestri í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í dag sem hún nefndi Frá Watergate til Wikileaks.

Vísaði hún þar til forsetaframbjóðanda bandarískra Repúblikana, Donalds Trump, sem kemur úr viðskiptalífinu í Bandaríkjunum og hefur ekki áður gefið sig að stjórnmálum. Hins vegar væri fyrir hendi Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata, sem væri innanbúðarmanneskja í Demókrataflokknum og bandarískum stjórnmálum sem harðkjarni flokksins þekkti og treysti þrátt fyrir að vera ekki viss um að hún væri alltaf hrein og bein.

Silja setti stöðuna í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 8. nóvember í sögulegt samhengi og fór í því skyni rúmlega fjóra áratugi aftur í tímann þegar svonefnt Watergate-mál kom upp sem að lokum leiddi til þess að þáverandi forseti Bandaríkjanna, Richard Nixon, sagði af sér embætti. Málið snerist um innbrot einstaklinga sem tengdust kosningabaráttu Nixons árið 1972 á kosningaskrifstofu Demókrata í Washington-borg.

„Það þarf ekkert að skemma Trump“

Ríkisstjórn Nixons reyndi að halda málinu leyndu og beitti meðal annars opinberum stofnunum í því skyni. En að lokum var það upplýst af blaðamönnum bandaríska dagblaðsins Washington Post sem höfðu undir höndum gögn um málið sem lekið hafði verið. Lekamál hafa einnig komið við sögu í kosningabaráttunni nú en uppljóstrarasamtökin Wikileaks hefur birt ýmis gögn sem tengjast Clinton sem hafa þótt óheppileg fyrir hana.

Munurinn sé sá að gögnin um Clinton hafi fengið mikla umfjöllun en fjölmiðlar hafi hins vegar verið hikandi við að fjalla um Watergate-málið á sínum lengi vel. Hins vegar hafi uppfjöllunin nú ekki náð miklu flugi í samanburði við hneykslismál tengd Trump. Silja sagði athygli vekja að Wikileaks hafi aðeins birt gögn um Clinton en ekki Trump. Ef samtökin hefðu gögn um hann sem ekki væri víst en líklegt. Til að mynda um skattamál hans.

Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Hillary Clinton.
Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Hillary Clinton. AFP

Kenningar væru um að ástæða þess væri sú að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, væri mjög andsnúinn Clinton. Ekki síst utanríkisstefnu hennar. Silja sagðist telja það skynsamlegri útskýringu að einfaldlega sé ekki talin þörf á að birta gögn um Trump. „Vegna þess að það þarf ekkert að skemma Trump, hann sér alveg um það sjálfur,“ sagði Silja. Hugsanlega væri öðru fyrir að fara ef Repúblikanar hefðu teflt fram betri frambjóðanda.

Kalt stríð á milli Pútíns og Clintons?

Silja kom einnig inn á fullyrðingar um að stjórnvöld í Rússlandi hefði staðið að innbrotum í bandarísk tölvukerfi og leka á gögnum um Clinton til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar. Væri eitthvað til í því þætti henni áhugaverðast hvað það þýddi í kjölfar kosninganna. Það þýddi í raun kalt stríð á milli Clintons og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta yrði hún forseti. Pútín teldi sig hins vegar eiga hönk upp á bakið á Trump yrði hann forseti.

Spurningin væri hins vegar hvort þessir lekar væru líklegir til þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna. „Þetta hefði dugað ef það væri betri kosningabarátta af hálfu Trumps í gangi,“ sagði hún. Trump hafi rekið óhefðbundna kosningabaráttu. Hann væri með mjög laustengt tengslanet í stað þess að opna kosningaskrifstofur í öllum ríkjum Bandaríkjanna og ná til fólks þar sem það skipti máli. Boðleiðir hans væru ennfremur mjög óljósar.

Trump hafi áfram lagt áherslu á þá aðferðafræði að fá einfaldlega sem mesta athygli. „En núna þegar þetta er maður þá er það ekki nóg því fólk fer að krefja hann um innihald. Og það virðist ekki vera að skila sér. Þannig að það vantar ofboðslega mikið upp á þetta. Eins og staðan er i dag eru bara yfirgnæfandi líkar á því að Hillary Clinton sigri þrátt fyrir töluvert vandasamar aðstæður. ... En það hverfur bara í storminum í kringum Trump.“

Fyrirlesturinn var í tengslum við sýninguna PORTRETT - handhafar Hasselblad-verðlaunanna þar sem sjá má verkið The Family eftir Richard Avedon sem samanstendur af portrett myndum af helsta áhrifafólki úr bandarísku þjóðlífi, stjórnmálamönnum, forstjórum stórfyrirtækja, fjölmiðlafólki og fleirum. Myndirnar voru teknar stuttu eftir Watergate-málið en þar má meðal annars sjá fólk í lykilhlutverkum í málinu.

Silja fjallar um áhrifafólkið á myndunum.
Silja fjallar um áhrifafólkið á myndunum. Ljósmynd/Ljósmyndsafn Reykjavíkur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert