Ljóð eru flögrandi út um allt

Móa átti stórafmæli á þessu ári og bað afmælisgesti um …
Móa átti stórafmæli á þessu ári og bað afmælisgesti um að styðja við útgáfu bókarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er heppin að hafa átt pabba sem var ljóðskáld og ljóðaunnandi og kynnti mig fyrir ljóðum og ljóðskáldum. Ég er klaufsk eins og pabbi. Við köllum það að kunna að detta á jafnsléttu.

Ég er svolítið hrædd við þetta fyrirbæri nútímans, flygildi. Þegar maður segir dróni, þá finnst mér það mjög skuggalegt orð sem lýsir þeirri tilfinningu að það sé einhver að fylgjast með manni úr einhverju tæki. Orðið flygildi er miklu rómantískara og saklausara. Minnir á fiðrildi. Mér finnst flygildi mjög flott nýyrði sem gefur aðra mynd af þessu tæknilega fyrirbæri, sem hægt er að nota bæði í góðum og slæmum tilgangi. Sumir vilja meina að flygildi sé samfélagslega gott, sem er nýtt sjónarhorn á þetta skuggalega fyrirbæri sem mér finnst að hafi verið skapað af STASI, eða öðrum leyniþjónustum. Þegar ég bjó í Edinborg var ég oft að ímynda mér að það væri flygildi að fylgjast með mér úr einhverjum af þeim strompum sem voru í nágrenni mínu þar,“ segir Móheiður Geirlaugsdóttir sem nýlega sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Flygildi.

„Það var mikið rætt fram og til baka hver titill bókarinnar ætti að vera, en einn daginn þegar ég hlustaði á umfjöllun í útvarpinu um flygildi, þá fæddist samnefnt ljóð sem er aftast í bókinni. Ég ákvað að bókin ætti að bera þetta sama nafn, sem fékk ekki mikinn hljómgrunn hjá yfirlesara og hugmyndasmið bókarinnar, Tinnu Ásgeirsdóttur. En ég ákvað að fylgja eigin brjóstviti og halda mig við þetta og núna eru allir sáttir.“

Berskjölduð að sýna inn í huga og líf

Móa segir að allt hafi þetta farið af stað þegar fyrrnefnd Tinna, vinkona hennar, hafi hvatt hana til að gefa út ljóð.

„Til að gera það mögulegt þá ákvað ég þegar ég átti stórafmæli á þessu ári að biðja afmælisgesti um að styðja við útgáfuna. Ég gaf hana sjálf út undir merkinu MOA PUBLISHING,“ segir Móa og bætir við henni hafi þótt það nokkuð erfitt skref að senda ljóðin frá sér út í heim þar sem þau verða öllum sýnileg.

„Til að byrja með sýndi ég engum ljóðin nema Tinnu, en hún er mjög góður yfirlesari.“ Móa segir að vissulega sé líka erfitt að senda frá sér ljóðabók, verandi dóttir ljóðskálds, Geirlaugs Magnússonar.

„Ég á enn þá von á því að fólk segi við mig: „Af hverju varstu að þessu?“ En útgáfa þessarar bókar var eitthvað sem þurfti að gerast. Og það tekur pínulítið á. Líka af því að þetta eru persónulega ljóð, um mitt hversdagslíf og nærumhverfi. Maður verður berskjaldaður þegar maður sýnir fólki inn í huga sinn og líf.“

Orti dramaljóð á gelgjuskeiðinu

Móa ólst upp við ljóð og hún segir að ljóðum hafi verið haldið að henni frá blautu barnsbeini.

„Ljóð voru lesin fyrir mig og ég las sjálf mikið af ljóðum, enda var mikið af ljóðabókum á heimilinu. Og fyrir vikið byrjaði ég snemma að fikta við að setja saman ljóð. Ég skrifaði mörg dramaljóð á gelgjuskeiðinu og ég hef líka alltaf skrifað mikið af dagbókum og ljóðin hafa fæðst þar inn á milli færslna. Ég sest ekki niður og segi við sjálfa mig: nú ætla ég að skrifa ljóð. Þau koma bara þegar þau koma, þau eru flögrandi út um allt,“ segir Móa sem er ekki óvön skrifum, hún hefur unnið árum saman við þýðingar úr frönsku.

Hún segist hafa unnið mikið í ljóðunum sem enduðu í bókinni, en sum þeirra eru frá því fyrir margt löngu. „Við Tinna fórum saman í gegnum öll ljóðin, endurbættum og hentum, enda er erfitt að sjá hvað má betur fara í því sem maður skrifar sjálfur. Mér fannst ekkert erfitt að skera niður, sum ljóðin duttu út á síðustu stundu en öðrum var auðvelt að sleppa, sem mér fannst of persónuleg.“

„Ég hugsa mikið til pabba“

Móa segir flest ljóðin í bókinni vera frá undanförnum fimm eða sex árum, þau urðu til í Norðurmýrinni þar sem hún býr, og einhver urðu til í Skotlandi þar sem fjölskyldan bjó í þrjú ár. „En sum ljóðanna eru eldri og annars staðar frá, eitt er frá Hveragarði þar sem pabbi var í litlu rithöfundahúsi og annað frá Sauðárkróki, þar sem pabbi bjó,“ segir Móa og bætir við að hún hugsi mikið til pabba síns og hann verði alltaf hluti af henni. Í einu ljóðinu kemur fram að hún hafi erft klaufaskap pabba síns.

„Já, ég er klaufsk eins og pabbi. Við köllum það að kunna að detta á jafnsléttu,“ segir hún og hlær. Þau feðgin voru mjög náin enda var Móa eina barn föður síns.

„Ég er heppin að hafa átt pabba sem var ljóðskáld og ljóðaunnandi og kynnti mig fyrir ljóðum og ljóðskáldum. Pabbi var líkur mér að því leyti að hann var mjög sjálfsgagnrýninn á eigin ljóð. En ég veit ekki hvað honum hefði þótt um mín ljóð, hann lét alveg í ljós ef honum mislíkaði. Hann fór yfir allar mínar ritgerðir á skólaárunum og var ekki spar á rauða pennann. Auðvitað hefði ég viljað hafa hann á lífi og þá hefði ég leitað til hans með ljóðin mín, með yfirlestur og ráð.“

Móa er ánægð með almenna velgengni ljóðsins undanfarin misseri og telur ástæðuna m.a liggja í samfélagslegri viðurkenningu. „Auk þess er oft meiri sköpun í kringum kreppur. Fólk hefur ekki lengur áhyggjur af formi ljóða, bragarháttum, hefðum eða stefnum. Fólk er miklu frjálsara,“ segir Móa sem á mörg uppáhaldsljóðskáld, en fjögur standa upp úr, Edith Sodergra, Pablo Neruda, Gyrðir Elíasson og bróðir hans Sigurlaugur Elíasson.

Ljóð úr bók Móu:

Sauðárkrókur

litla fjallið var okkar
svo óendanlega stórt þegar
litla höndin mín
passaði svo vel í þína stóru
örugg gengum við upp
til að sjá allan heiminn
í einu þorpi
oft á dag
gekkstu með mér upp
þar sem hinir dauðu voru nær himnum
og við nær hröfnunum

Móa með dætrunum Ísold og Karólínu.
Móa með dætrunum Ísold og Karólínu. mbl.is/Árni Sæberg
Móa með pabba sínum, Geirlaugi.
Móa með pabba sínum, Geirlaugi.
Kápa ljóðabókar Móheiðar Hlífar.
Kápa ljóðabókar Móheiðar Hlífar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert