Mörg þúsund fá mataraðstoð

Myndin var tekin hjá Mæðrastyrksnefnd, þar sem búið var að …
Myndin var tekin hjá Mæðrastyrksnefnd, þar sem búið var að útbúa matarpoka fyrir jólin. Ekki er vitað um nákvæman fjölda þeirra Íslendinga sem fá matargjafir en talið er að þeir séu nokkur þúsund. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Þeir sem þiggja mataraðstoð á Íslandi verða oft fyrir fordómum. Úr slíkum viðhorfum dró þó í kjölfar hrunsins. Ekki er vitað með vissu hversu margir Íslendingar fá mataraðstoð en talið er að þeir skipti þúsundum.

Mataraðstoð, umfang hennar og reynsla þeirra sem hennar njóta er til umræðu á fundi sem samtökin Pepp Ísland standa fyrir nú í morgunsárið. Pepp er skammstöfun á ensku fyrir „People experiencing poverty“ og er tengslanet fólks sem hefur það að markmiði að vinna bug á fátækt. Á fundinum verða einnig fulltrúar ýmissa hjálparsamtaka, auk fulltrúa Velferðarvaktar félagsmálaráðuneytisins.

Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, segir að ekki séu til heildartölur um fjölda þeirra sem þiggi mataraðstoð frá frjálsum félagasamtökum. Aðstoðin sé afar mismunandi; stundum sé verið að afhenda matvörur, í öðrum tilvikum fái fólk inneignarkort í tilteknar matvöruverslanir og þá sé nokkuð um að fólk fái „mat á disk“. „Við höfum gert lauslega könnun meðal hjálparsamtaka en við getum ekki byggt á þeim tölum því skráningin er mismunandi,“ segir Siv.

Vinna meira, skaffa meira

Til þess að fá einhverja hugmynd um umfangið segir Siv að styðjast megi við skilgreiningu Eurostat, evrópsku hagstofunnar, á sárafátækt en samkvæmt henni falla 1,3% Íslendinga, tæplega 4.300 manns, undir þá skilgreiningu. „Við vitum ekki hvort allir í þeim hópi fá mataraðstoð en þetta gefur okkur einhverja hugmynd um stöðu mála,“ segir Siv.

Í þessu sambandi nefnir hún könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem gerð var 2010 fyrir þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þar voru þeir sem fengu mataraðstoð hjá þremur hjálparsamtökum á einum tilteknum degi taldir. „Niðurstaðan var að þennan dag sóttu 730-790 manns mataraðstoð til þessara þriggja samtaka,“ segir Siv.

Spurð hvort ekki þyrfti að taka saman heildartölu þeirra sem fá mataraðstoð hér á landi segir hún svo vera. „Það væri mjög áhugavert. En það kallar hugsanlega á meira samstarf á milli hjálparsamtakanna allra og að þau skrái upplýsingar á sama hátt.“

Ásta Dís Guðmundsdóttir, formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, er samhæfingarstjóri Pepp. Hún hefur þegið mataraðstoð og segir viðhorf samfélagsins hafa verið neikvætt gagnvart þessum hópi í gegnum tíðina og einkennst af hroka og skilningsleysi. Það hafi þó breyst í kjölfar hrunsins. „Þá áttuðu margir sig á því að venjulegt fólk gæti vel lent í þeirri stöðu að eiga erfitt. En það er enn algengt viðhorf á Íslandi að fátækt sé ekkert annað en aumingjaskapur. Að hægt sé að komast út úr henni með því að vinna meira, skaffa meira. En það er bara ekki alltaf hægt,“ segir Ásta Dís.

Margir þurfa meira en mataraðstoð og fyrir jól hefur verið …
Margir þurfa meira en mataraðstoð og fyrir jól hefur verið staðið fyrir jólagjafasöfnun. Viðbrögðin hafa verið góð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hún segir að fundurinn í dag marki ákveðin tímamót. Hingað til hafi raddir þeirra sem noti þjónustu á borð við matargjafir ekki verið háværar. „Það hefur verið svo mikil skömm á Íslandi að vera fátækur. En það skiptir virkilega miklu máli að þeir sem fái aðstoðina komi að borðinu.“

Hjálparstarf kirkjunnar er meðal þeirra samtaka sem veita mataraðstoð. Á síðasta starfsári, frá júlí 2015 til júní 2016, fengu rúmlega 2.000 einstaklingar slíka aðstoð. „Á bak við þessa einstaklinga eru fjölskyldur, þannig að við gætum sagt að 5.500 manns hafi notið mataraðstoðar hjá okkur á þessu tímabili,“ segir Sædís Arnardóttir, félagsráðgjafi hjá hjálparstarfinu.

Margvísleg aðstoð

Sædís segist finna að staðan hafi batnað hjá mörgum. Til dæmis sé auðveldara að fá vinnu nú en oft áður. Hún segist þó verða vör við að húsnæðiskostnaður sé að sliga marga. „46% af þeim sem koma til okkar eru á almennum leigumarkaði og þeir ráða einfaldlega ekki við leiguna. Ég hef heyrt dæmi um 200.000 á mánuði fyrir litla þriggja herbergja íbúð. Fólk með lágar tekjur ræður alls ekki við það.“

Hjálparstarfið veitir margs konar aðra aðstoð. Á síðasta starfsári voru til dæmis 38 börn styrkt til tómstundastarfs, 439 manns fengu aðstoð við lyfjakaup og foreldrar 210 skólabarna fengu inneignarkort til að kaupa skóladót.

Að sögn Sædísar er nokkuð um að fólk fái mataraðstoð og aðra aðstoð frá hjálparsamtökum svo árum skipti. „Það eru allnokkur dæmi um fólk sem hefur fengið mataraðstoð í meira en tíu ár, sumir hafa fengið hana síðan við byrjuðum að skrá niður árið 1995.“

Sædís segir að fólk á aldrinum 30-49 ára sé um helmingur þeirra sem fái aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og að konur séu í meirihluta. „Annars er þetta fjölbreyttur hópur, en fólk sem hefur verið í þessari stöðu lengi á það gjarnan sameiginlegt að vera bæði brotið og viðkvæmt. Þunglyndi og kvíði eru algengir fylgifiskar fjárhagserfiðleika.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert