„Tökum allt með nema bakarofninn“

Kokkalandsliðið tekur þátt í Ólympíuleikunum í matreiðslu í Erfurt í …
Kokkalandsliðið tekur þátt í Ólympíuleikunum í matreiðslu í Erfurt í Þýskalandi 21.-26. október. Ljósmynd/aðsend

Íslenska kokkalandsliðið er mætt til Erfurt í Þýskalandi þar sem Ólympíuleikarnir í matreiðslu hófust fyrr í dag. Ólympíuleikarnir, IKA Culinary Olympics, eru haldnir á fjögurra ára fresti og þar mætast um 2.000 af færustu kokkum heimsins sem keppa sín á milli um gull, silfur og brons verðlaun.

Kokkalandsliðið er skipað 16 kokkum sem hafa æft saman fyrir keppnina síðastliðna 18 mánuði. Þeirra á meðal er Þráinn Freyr Vigfússon, faglegur framkvæmdastjóri liðsins, en hann er sá eini sem hefur áður tekið þátt í Ólympíuleikunum.  

„Það myndast alltaf ákveðin stemning í hópnum þegar komið er á áfangastað og við getum byrjað að vinna og koma okkur fyrir. Hópurinn er einstaklega vel stemmdur núna og þetta leggst vel í okkur,“ segir Þráinn í samtali við mbl.is. „Þetta byrjaði allt með hugmyndavinnu í fyrra og núna snýst þetta um að gera nokkra rétti sem fara í gegnum ákveðið þróunarferli, það er alltaf verið að vinna að því að bæta þá með hverri æfingunni.“

Lið frá um 40 þjóðum keppa á leikunum og tekur kokkalandsliðið þátt í tveimur greinum, annars vegar svokölluðu köldu borði eða Culinary Art Table og hins vegar í heitum mat eða Hot Kitchen. Í keppninni um heitu réttina er útbúinn þriggja rétta matseðill með forrétt, aðalrétt og eftirrétt sem eldað er frá grunni á keppnisstað fyrir 110 gesti. Í Culinary Art Table eru sýndir yfir 30 réttir sem tekur rúmlega tvo sólarhringa að útbúa. Dómarar alls staðar að úr heiminum með tilheyrandi réttindi dæma í keppnunum þar sem meðal annars er tekið mið af bragði, útliti, samsetningu, hráefnisvali og fagmennsku við undirbúning og matargerð.

„Það má ekkert fara úrskeiðis, það mega til dæmis ekki vera tvær gulrætur á einum disk og ein á öðrum,“ segir Þráinn.

Fjögur tonn af búnaði, brettum og hnífum  

Mikill farangur fylgdi kokkalandsliðinu til Þýskalands, eða um 4 tonn af búnaði, þar sem liðið þarf að setja upp fullbúið eldhús á keppnisstað. „Við tökum í raun allt með okkur nema ofnana. Við erum með litlar spanhellur, potta, pönnur, tæki og tól, allt frá „vacuum“ vélum til „shock“ frysta. Við erum mörg í liðinu og það þarf mörg bretti og marga hnífa svo allt gangi upp.“

Þá er ótalið hráefnið sem flytja þarf á staðinn en Kokkalandsliðið leggur áherslu á að nota sem mest af hágæða íslensku hráefni í matargerðina. „Í heita matinn notum við humar og ýsu sem við reykjum í keppninni í forrétt. Í aðalrétt erum við með naut og í desert erum við með skyr, hindber og súkkulaði.“

Um fjögur tonn af farangri fylgdu kokkalandsliðinu til Þýskalands.
Um fjögur tonn af farangri fylgdu kokkalandsliðinu til Þýskalands. Ljósmynd/aðsend

Þráinn segir hópinn setja markið hátt. „Við erum með ákveðið markmið innan hópsins og það er að gera betur en á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg fyrir tveimur árum. Þar lentum við í fimmta sæti og við stefnum því á þrjú efsti sætin í þessari keppni, sem er reyndar erfiðari þannig þetta eru háleit markmið. En hópurinn er vel upp lagður og það er allt hægt í þessu.“

Lítið um svefn nóttina fyrir kalda borðið

Keppnin hefst á morgun og lýkur á miðvikudag og ljóst er að næstu dagar verða langir og krefjandi. „Við vinnum samkvæmt plani frá 7 á morgnana til klukkan 22 á kvöldin. Þegar við gerum kalda borðið þá verður það líklega þannig að við munum ekkert sofa í sólarhring þar sem við skilum borðinu af okkur klukkan 7 um morguninn.“

Margir af frægustu kokkum heims láta sjá sig á leikunum en Þráinn segir að það gefist lítill tími til að berja þá augum. „Þetta er ekkert rosalega „glamourous“ líf, við erum á hótelinu að vinna allan tímann og erum svo í höllinni í tvo daga. Þetta er þétt dagskrá en mjög skemmtileg.“

En hvaða þýðingu hefur það að ná langt í keppni eins og þessari? „Þetta er góð landkynning og skilar sér til veitingastaðanna hér heima þar sem við erum með færa kokka og starfsfólk. Góður árangur ýtir undir færni okkar og metnað sem matreiðslumanna.“

Hægt er að fylgjast með framvindu mála hjá kokkalandsliðinu á Facebook, á Instagram undir @icelandicculinaryteam og á Twitter undir @kokkalandslidid

Liðsstjórinn Steinn Óskar Sigurðsson með hluta farangurs í Frankfurt.
Liðsstjórinn Steinn Óskar Sigurðsson með hluta farangurs í Frankfurt. Ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert