Vona að matarvagninn skili sér

Litli matarvagninn er minni en barnavagn.
Litli matarvagninn er minni en barnavagn. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

„Við lifum í þeirri von að sá sem hefur tekið vagninn hafi verið að leika sér og komi svo og skili vagninum aftur,“ segir Ólöf Helga Pálmadóttir leikskólastjóri Sunnuáss við Laugarásveg 77. Litlum matarvagni var stolið við leikskólann um hádegið í gær.

Vagninn stóð inni á lóð leikskólans þegar hann var tekinn, á meðan elstu börnin í leikskólanum snæddu hádegismat. 

Frétt mbl.is: Tóm­um mat­ar­vagni stolið

Vagninn sem um ræðir er einfaldur að gerð og er ívið minni en barnavagn að stærð og hjólin nokkuð smærri. Vagninn er notaður til að ferja hitakassa með mat á milli húsa í leikskólanum en mötuneytið er í annarri byggingu en þar sem elstu börnin eru.

Ólöf segir tjónið töluvert því nokkur kostnaður liggi í vagninum. Hún bindur vonir við að vagninn skili sér sem fyrst því þetta veldur töluverðum óþægindum, ef hans nýtur ekki við þarf að burðast með matinn á milli staða. 

Fólk í hverfinu er beðið að hafa augun hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert