Vilja að stamið heyrist víðar

Sigríður Thorlacius og Þórunn Jóna.
Sigríður Thorlacius og Þórunn Jóna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raddir þeirra sem stama heyrast síður, meðal annars vegna þess hversu fáir stama. Hins vegar er það afar mikilvægt að breiða út meðvitund um stam. Þetta segja þær Sigríður Fossberg Thorlacius og Þórunn Jóna Þórarinsdóttir sem báðar stama og hafa verið virkir þátttakendur í Málbjörgu, félagi um stam. 

Félagið fagnar alþjóðlegum vitundarvakningardegi í dag laugardaginn 22. október og einnig 25 ára starfsafmæli 10. október.

Enn séu ákveðnir fordómar í samfélaginu sem koma til einkum vegna þess að lítið er um fræðslu. „Ég hef alla tíð fundið fyrir miklum fordómum,“ segir Þórunn Jóna. „Fólk skilur þetta ekki og það er eins og stami sé einhvernveginn bara sópað undir mottuna.“

Enn þann dag í dag lendir hún í því að skellt sé á hana í símanum þegar hún er til dæmis að panta læknisskoðun eða til að fá upplýsingar um eitt og annað. 

„Ég lendi ennþá í því að það sé hlegið upp í opið geðið á mér, þegar ég bið um eitthvað í búðum eða annað. Manni sárnar þetta. Það er skrítið að þetta sé svona enn þann dag í dag, við eigum ekki að vera fordómasamfélag.“

Slæmt þegar stamið tekur stjórnina

Þórunn Jóna er með taugasjúkdóminn CP sem felur í sér meðal annars að heiladingullinn sendir önnur boð frá sér en hjá heilbrigðum einstaklingi og það er einnig eitthvað óútskýrt sem veldur miklu stami. 

„Ég sjálf stama ekki þegar ég syng, öskra eða tala við börnin mín. Í rauninni bregður mér stundum þegar ég heyri aðra stama því ég hugsa með mér: „Er ég svona?“ og velti fyrir mér hvernig fólk nenni á annað borð að hlusta á mig,“ segir hún og hlær. 

„Ég auðvitað þekki ekkert annað en að stama og mér finnst ég ekki stama svona þegar ég tala sjálf. Stamið kemur þegar ég verð stressuð og þegar ég fer út og þarf að spjalla við annað fólk. Það er álag fyrir mig að fara út í búð og gera hluti sem öðrum þykja einfaldir, eins og til dæmis bara að biðja um poka í matvöruverslun, þá stama ég“

Sigríður og Þórunn Jóna eru sammála um það að vegna þess að fólk beri ekki merki um stam utan á sér þá virðist vera eins og lítið sé gert úr fötluninni.

„Stam er mismunandi hjá fólki. Hjá mér hefur það minnkað mikið eftir að ég varð eldri. Fólk heldur stundum að ég sé að djóka þegar ég fer að stama og fer að hlæja. En ég segi þá bara að ég stami, sem kemur fólki á óvart. Ég skil það alveg, því ég ber þetta ekki utan á mér,“ segir Sigríður. „En stam er alls staðar eins, á öllum tungumálum og við getum öll tengt við þetta.“

Halda viðburð á tímamótum

Málbjörg slær til veislu í Hlíðarsmára 9, laugardaginn 22. október milli klukkan 16-18. „Pollapönk ætlar að taka lagið og spilar meðal annars að sjálfsögðu lagið um talgalla sem á ekki að uppnefna og hrekja burtu fordóma. En það eru allir hjartanlega velkomnir,“ segir Sigríður.

Ítarlegra viðtal við Sigríði og Þórunni Jónu birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert