Framleiða Matargat fyrir villiketti

Skyggnið á Matargatinu skýlir matnum fyrir veðrum, en nær ekki …
Skyggnið á Matargatinu skýlir matnum fyrir veðrum, en nær ekki svo langt fram að kettirnir sé smeykir við að fara undir það. Ljósmynd/Villikettir

Hugmyndin að Matargatinu, fóðurstauk sem félagið Villikettir hefur látið útbúa fyrir sig, fannst á Pinterest og var þar notuð til að fóðra hænsnfugla. Það hentar þó ekki köttum síður vel, en Villikettir safna nú fyrir framleiðslu á fleiri Matargötum.

Heiðurinn að Matargatinu á vöruhönnuðurinn María Krista Hreiðarsdóttir, sem framleiðir eigin hönnun undir merkinu Krista Design. María Krista er félagi í Villiköttum, auk þess að vera með lítið kattaathvarf á eigin vegum.

Frétt mbl.is: Vilja finna heimili fyrir fleiri ketti

Fann hugmyndina á Pinterest

„Það er búið að vera nokkuð vesen að halda matardöllunum hreinum, því það rignir lárétt hér á Íslandi,“ segir María Krista. Hún segir hugmyndina að Matargatinu vera unna út frá fóðurstaukum sem hún fann á Pinterest.  

„Ég er grafískur hönnuður og vöruhönnuður og útfærði Matargatið í samvinnu við manninn minn,  Börk Jónsson, sem er búinn að smíða þessi 10-12 stykki sem við höfum gert nú þegar.“ Þau hjónin reka verslunina Systur og makar með systur Maríu Kristu, Kötlu og hennar manni.

„Hugmyndina fann ég á Pinterest, en bandarískir hænsnabændur nota svipaða aðferð til að fylla á fóður fyrir hænurnar sínar, “ segir María Krista. Matargatinu er komið fyrir á svæðum þar sem félagið Villikettir, sem stofnað var til að sinna velferð villkatta, hefur tekið villiketti og látið gelda áður en þeim er sleppt á ný og heldur félagið uppi fóðurgjöf eftir sleppingu.

María Krista þurfti þó að laga hugmyndina að íslenskri veðráttu. „Það þýðir ekkert að setja þetta á timburpall hér á landi,“ segir hún.

Þora að fara undir skyggnið

Hönnun Matargatsins virðist líka henta íslensku veðurfari. „Þeir virðast ekki fjúka, þótt það geti vissulega rignt aðeins undir skyggnið í mikilli rigningu og roki. Skyggnið nær síðan passlega langt út fyrir, þannig að kettirnir þora að fara undir það,“ segir hún og bætir við að köttunum sé illa við að fara inn í þröng rými. „En þar sem rassinn nær alveg út þarna upplifa þeir sig örugga.“

Botninn á Matargatinu er úr endurunnu hjólbarðagúmmíi og það er því þungt og stöðugt. Ekki hvað síst ef það er fullt af mat, en hver staur er um metri á hæð og tekur um 5 kg af þurrmat.

María Krista segir villikettina hafa tekið Matargatinu vel. „Fyrst var þetta svolítið spes, en um leið og maturinn var kominn í þá voru þeir mættir. Kettir eru líka forvitnir að eðlisfari, þannig að þeir voru ótrúlega fljótir að finna úr þessu.“

Fyrirspurn frá bónda

Hún segir staurana líka yfirleitt vera galtóma þegar félagsmenn Villikatta koma og fylla á þá á 3-7 daga fresti. „Þetta er raunar líka sniðugt fyrir fólk að hafa heimavið ef það er með ketti,“ segir hún. Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, sem einnig er í félaginu, staðfestir þetta og segist hafa fengið fyrirspurn frá bónda nokkrum um Matargatið, fyrir ketti sem hann er með í hlöðunni.

Efniskostnaður við hvert Matargat er undir 20 þúsund krónum með sjálfboðavinnu, en smíðin tekur sinn tíma. „Við þyrftum að útbúa miklu fleiri stauka,“ segir María Krista og auglýsir eftir sjálfboðaliðum til að taka að sér slík verkefni fyrir Villiketti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert