Halda að þeir geti mútað mér

Arna Ýr Jónsdóttir var valin ungfrú Ísland í fyrra.
Arna Ýr Jónsdóttir var valin ungfrú Ísland í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég fékk nóg og ákvað að fara. Gera það sem flestar stelpur þora ekki að gera þegar þær lenda í þessum aðstæðum,“ segir feg­urðardrottn­ing­in Arna Ýr Jóns­dótt­ir í samtali við mbl.is.

Arna greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að hún myndi ekki stíga á svið í keppn­inni Miss Grand In­ternati­onal í Las Vegas sem fram fer annað kvöld. Eigandi keppninnar skipaði henni að grenna sig fyrir úrslitakvöldið en í gær sagði Arna málið á misskilningi byggt. Hún dró það til baka í morgun og sagði að henni hefði verið skipað að segja málið misskilning.

„Maðurinn sem sendi mig út í keppnina er búinn að fara á fund með eigandanum,“ segir Arna aðspurð um hver viðbrögðin hafa verið við yfirlýsingu hennar um að hún sé hætt keppni.

Ég myndi aldrei segja já

Eigandinn er búinn að segja að ég hefði átt að vinna keppnina og það hefði átt að krýna mig. Þeir vildu bara hafa mig sem flottasta þegar ég væri krýnd. Maðurinn sem sendi mig út, sem er umboðsmaður, sagði að ég ætti bara að mæta á sviðið, fá kórónuna og fá 40 þúsund dollara. Þeir halda virkilega að þeir geti mútað mér með peningakórónu en það virkar ekki þannig,“ segir Arna en hún trúir því ekki að hún hefði verið krýndur sigurvegari:

Það er líklega einhver beita. Þeir vilja ekki vinna með stelpu sem þeir gætu ekki tuskað til í heilt ár þannig að auðvitað myndi ég ekki vinna, með mitt viðhorf. Ég myndi aldrei segja já, þótt þeir mútuðu mér með rosalegri peningaupphæð.“

Arna, fyrir miðju.
Arna, fyrir miðju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna hefur tekið þátt í nokkrum fegurðarsamkeppnum en aldrei lent í neinu eins og þessu. „Nei, mér hefur alltaf verið tekið eins og ég er. Það er ástæðan fyrir því að ég hef tekið þátt í þessum keppnum. Ég hef sagt við fjölskylduna heima að um leið og eitthvað svona yrði sagt við mig þá myndi ég hætta,“ segir hún og kveðst ennfremur ekki hafa tekið eftir neinum svona athugasemdum áður:

„Nei, það er aðallega út af því að ég hef ekkert verið að fara í svona bikiní keppnir, þannig séð.“

Geta ekki haldið mér

Arna segir að ekki sé um samningsbrot að ræða þótt hún stígi ekki á svið annað kvöld. Samningurinn við keppnina hafi aðallega snúist um einfaldar reglur eins og að mæta á réttum tíma á æfingar og slíkt. „Þetta snýst um persónuleg réttindi. Þeir geta ekki haldið mér og látið mig fara upp á svið í bikiní.“

Arna Ýr í Vegas.
Arna Ýr í Vegas. Ljósmynd/Facebook síða Örnu Ýrar

Eins og áður kom fram hefur stuðningsskilaboðum rignt yfir Örnu á samfélagsmiðlum í dag. Hún segir frábært að sjá stuðninginn sem hún fær að heiman. „Ég er í sjokki hvað allir eru góðir og ég hlakka mjög mikið til að fara heim,“ segir Arna en hún heldur heim á leið frá Las Vegas um leið og hún hefur náð í vegabréfið sitt á hótelið sem hún dvaldi á.

Þetta á ekki að vera í boði

„Þetta er mjög góð spurning,“ segir Arna aðspurð hvort þetta breyti skoðun hennar á fegurðarsamkeppnum. „Þegar ég fór í Ungfrú Ísland var ekkert sagt við mig og ég fékk að vera eins ég er og fékk ótrúlega mikið út úr því. Án þess hefði ég aldrei fengið sjálfstraustið sem ég hef núna,“ segir Arna en hún bætir við að stelpur þurfi líka að geta sagt nei:

Þetta á ekki að vera í boði. Það eru ákveðnar keppnir sem eru í boði en ég vona innilega að engin íslensk stelpa muni taka þátt í þessari keppni eftir þetta.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Cosmopolitan hrósar Örnu

„Það eru allir stoltir af þér!“

Arna Ýr: Ég er hætt

Fituummælin byggð á misskilningi

Segir Ungfrú Ísland of feita

Arna Ýr Jónsdóttir og kærastin hennar, Egill Trausti Ómarsson
Arna Ýr Jónsdóttir og kærastin hennar, Egill Trausti Ómarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert