Ellefu þúsund greitt atkvæði

Gengið verður til kosninga laugardaginn 29. október.
Gengið verður til kosninga laugardaginn 29. október. mbl.is/Ómar Óskarsson

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fyrir komandi alþingiskosningar hefur farið rólega af stað, en töluvert færri hafa greitt atkvæði nú en á sama tíma fyrir síðustu alþingiskosningar. Alls hafa um 11.308 manns greitt atkvæði utan kjörfundar í heild en um 7.153 hafa greitt utankjörfundaratkvæði hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er minna en var í alþingiskosningunum 2013 og forsetakosningunum nú í sumar. Það er þó alltaf mest að gera síðustu tvo til þrjá dagana fyrir kosningar, en miðað við sama tíma fyrir síðustu kosningar er þetta minna,“ segir Bryndís Bachmann, fagstjóri hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segir erfitt að segja hvað orsaki þennan mun en það geti þó vel verið árstíminn, þar sem fólk sé minna á ferðinni á haustin en á vorin og á sumrin og greiði því frekar atkvæði á kjördag. „Síðan getur líka verið að fólk eigi eftir að ákveða sig.“

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fer fram alla daga fram að kosningum frá 10.00 til 22.00 í Perlunni í Öskjuhlíð. Á kjördag, laugardaginn 29. október, verður opið milli klukkan 10.00 og 17.00 fyrir kjósendur sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins.

Þá er einnig hægt að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumönnum, sendiráðum og ræðismönnum.

Frekari upplýsingar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert