Flott og spennandi að borða íslenskt

Verslunin The Fish Dock er vel merkt með íslenska fánanum …
Verslunin The Fish Dock er vel merkt með íslenska fánanum úti í glugga. mbl.is/Hildur Loftsdóttir

Við aðalgötuna í litla fallega bænum Closter í New Jersey blasir íslenski fáninn við í einum búðarglugganum. Þar opnuðu hjónin Ólafur Gísli og María Baldursson fiskbúðina The Fish Dock síðasta vor og hafa bæjarbúar tekið þeim fagnandi. Enda slá fáir hendinni á móti ferskum fiski frá Íslandi.

Það er ansi heimilislegt að ganga inn í fiskbúðina The Fish Dock. Það fyrsta sem við augum blasir er íslenskt smjör, kavíar, reykt bleikja, síld og íslenskt vatn í kælinum. Í hillum má svo sjá flögusalt og súkkulaði, og íslenskar hönnunarvörur. Og í fiskborðinu fína er meira að segja reykt ýsa!

Í búðinni er vart þverfótað fyrir viðskiptavinunum sem eru komnir að sækja hádegismatinn sinn, sem í dag er lax með rósakáli og hrísgrjónapílafi.

„Ég kem hingað næstum á hverjum degi,“ segir bæjarbúi við blaðamann. „Þetta er besti staðurinn í bænum.“

Fundu hvort annað

Ólafur Gísli og María Baldursson opnuðu The Fish Dock vorið 2015 ásamt Baldri syni Ólafs, sem er markaðs- og viðskiptafræðingur. Um síðustu jól byrjaði Jóhanna Arfmann frá Tálknafirði að vinna hjá þeim og svo bættist Courtney VanTine í hópinn, en hún er dóttir vina þeirra sem hafa oft komið til Íslands.

Ólafur og María eru bæði ofan af Skaga og hafa alltaf þekkst. María hefur búið í um 30 ár í Bandaríkjunum og á tvo uppkomna syni. Hún vann hjá Rolex og starfaði síðan sem fasteignasali í mörg ár. Ólafur fluttu ekki til Bandaríkjanna fyrr er árið 2010.

„Þá fundum við hvort annað aftur,“ segir hann og lítur á Maríu.

„Við erum sko kærustupar síðan í gamla daga,“ útskýrir María brosandi.

Ólafur starfaði sem rafeindavirki á Akranesi, en vann í Sádi-Arabíu áður en hann flutti til Bandaríkjanna, þar sem hann sá um þrjár ratsjárstöðvar.

„Þegar ég flutti hingað var mikil lægð á atvinnumarkaðinum,“ segir Ólafur. „Við ákváðum að finna okkur eitthvað sjálf að gera og byrjuðum á því að gera upp hús en enduðum svo í fiskinum. Við þekkjum hjón sem eru með fiskútflutning og þau stungu því að okkur að vera með heildsölu í Bandaríkjunum, sem okkur leist mjög vel á. Svo fundum við þetta húsnæði og fannst tilvalið að vera með smá verslun ásamt heildsölunni.“

Einblínum á gæðin

Voruð þið alltaf viss um að þetta myndi ganga?

„Við skönnuðum markaðinn hér, gerðum viðskiptaáætlun og tókum svo slaginn. Miðað við fjölda fólks hér í kring og fjölda fiskbúða á Íslandi, þótt Íslendingar séu miklu meiri fiskætur, hlyti þetta að ganga með svona góðan fisk og allt þetta fólk,“ segir Ólafur.

„Við ætluðum í byrjun að vera með fisktegundir sem fólk héðan er vant,“ segir María. „En það gekk svo brösuglega að koma því öllu af stað að við byrjuðum bara með íslenskt fiskborð. En svo varð það svo vinsælt að við ákváðum að halda okkur bara við íslenska fiskinn. Reyndar erum við með bandarískar rækjur en þær eru villtar því við einblínum á gæðin,“ segir María.

„En umsvifin í heildsölunni eru alltaf að aukast hjá okkur. Við seljum til fimm eða sex veitingastaða hér í New Jersey, m.a. eins besta steikhússins í ríkinu, sem heitir The River Palm Terrace í Edgewater,“ segir Ólafur.

„Það bætist alltaf í hópinn. Nýlega var opnaður nýr veitingastaður á Manhattan sem hjón reka, og konan er íslensk. Okkur finnst mjög gaman að vinna með veitingahúsunum og erum til í að fá enn fleiri viðskiptavini úr þeim geira.“ „Já, og við værum líka til í að fá inn fleiri flottar íslenskar vörur til að selja og auglýsa fyrir landann,“ bætir María við.

Lax, lax, lax og aftur lax

Sjálf bjóða þau upp á heitan hádegismat og segir María að bráðum geti fólk líka pantað kvöldmat úr borðinu, sem þau muni sjá um að elda.

„Við ætluðum ekki að elda hérna en aðstaðan er bara svo góð, af því að þetta var lítill veitingastaður áður,“ segir María, sem er aðalkokkurinn á staðnum.

„Við erum allar stelpurnar að elda, Courtney langar að verða kokkur og er mjög flink og Jóhanna sömuleiðis. Við vorum mjög heppin að fá þær til liðs við okkur.

Á föstudögum er auk réttar dagsins boðið upp á feikivinsæla sjávarréttasúpu með laxi, rækjum og kræklingi, og soðið gert úr humarskeljum.“

Hvað er vinsælast hjá ykkur úr fiskborðinu?

„Lax,“ svarar Ólafur án þess að hugsa sig um. „Hann er einn þriðji af sölunni hjá okkur.

„Fólkið sem kaupir hann er fólkið sem þorir ekki að prófa neitt nýtt,“ bætir María við. „En bleikjan er líka mjög vinsæl.“

Annars segja þau flesta viðskiptavinina til í að prófa nýjan fisk. Í Closter og þar í kring sé frekar efnameira fólk og því finnist flott og spennandi að borða mat frá Íslandi.

„Fólk sem er upprunnið frá Skandinavíu og hefur heyrt of okkur kemur langar leiðir til okkar,“ segir Ólafur. „Hér í Closter er stór hluti íbúa upprunalega frá Suður-Kóreu. Þeir standa mikið saman og versla hver af öðrum. Þeir verka fiskinn öðruvísi og vilja fisk með haus og beinum til að búa til súpu úr. Japanirnir hins vegar elska þessa búð.“

Salan tvöfaldaðist

María og Ólafur segja að eitt það besta við bæinn sé að þar ríki smábæjarstemning.

„Við þekkjum orðið alla viðskiptavinina með nafni, eins og það væri ef við værum á Akranesi eða í litlum bæ úti á landi heima á Íslandi,“ segir María.

„Fólk staldrar við og spjallar. Það hringir og biður okkur að pakka fisknum fyrir sig. Það eru ekkert að skoða fiskinn lengur, það veit að það fær það besta.“

„Svo er ég farinn að reka ferðaskrifstofu hér á bak við,“ segir Ólafur og hlær. „Við erum auðvitað fulltrúar Íslands á svæðinu og erum alltaf að fá spurningar frá fólki um hvert það eigi að fara á Íslandi.“

The Fish Dock hefur ekki bara fengið góð viðbrögð viðskiptavina heldur einnig góða umfjöllum í blöðunum.

„Það kom blaðamaður hingað frá dagblaðinu The Record, kona sem skrifaði um okkur og síðan fór hún til Íslands og birti aðra grein um okkur,“ segir María. „Best var samt þegar við vorum á forsíðu tímaritsins Better Living og fengum opnu umfjöllun þar. Salan tvöfaldaðist um leið. Fólki finnst voða smart að kaupa íslenskt og við erum mjög hreykin af íslenska fisknum okkar.“

Á þá ekki að færa út kvíarnar?

„Við erum að velta því fyrir okkur,“ segir Ólafur.

„Það er alltaf verið að biðja okkur um að opna verslun í fleiri bæjum,“ segir María.

„Við ætlum að hugsa það fram á vorið og leyfa fyrirtækinu að dafna betur,“ segir Ólafur.

Svo eru þau hjónin rokin að afgreiða viðskiptavinina, sem láta ekki á sér standa.

Fjölskyldan í búðinni: (f.v.) Ólafur, Baldur, Courtney, Jóhanna og María.
Fjölskyldan í búðinni: (f.v.) Ólafur, Baldur, Courtney, Jóhanna og María. mbl.is/Hildur Loftsdóttir
Úrvalið er mikið í The Fish Dock.
Úrvalið er mikið í The Fish Dock. mbl.is/Hildur Loftsdóttir
Nóg að gera. Baldur, Ólafur og Jóhanna afgreiða í búðinni …
Nóg að gera. Baldur, Ólafur og Jóhanna afgreiða í búðinni The Fish Dock. mbl.is/Hildur Loftsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert