Stórt skref inn í framtíðina

„Við sem stjórnum fyrirtækinu höfum sagt það að við leggjum …
„Við sem stjórnum fyrirtækinu höfum sagt það að við leggjum okkar af mörkum. Næsta skref er að fá þetta allt samþykkt hjá stjórnvöldum," segir Ólafur Jóhann Ólafsson.

Ólafur Jóhann Ólafsson, aðstoðarforstjóri bandaríska fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtækisins Time Warner, verður áfram varaforstjóri fyrirtækisins, en samkomulag náðist á laugardag um kaup bandaríska fjarskiptafyrirtækisins AT&T Inc. á Time Warner.

Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um endurskipulagningu fyrirtækisins. Stjórnendur muni áfram sinna störfum sínum.

„Það eru engar breytingar í kortunum á næstunni hjá mér. Við sem stjórnum fyrirtækinu höfum sagt það að við leggjum okkar af mörkum. Næsta skref er að fá þetta allt samþykkt hjá stjórnvöldum, en það getur tekið einhverja mánuði. Síðan tekur við að reka fyrirtækið áfram undir þessum nýju formerkjum. Hvað verður síðan veit maður auðvitað aldrei. Það hefur jafn mikið með sjálfan mig að gera og þetta, en það er ekkert í kortunum,“ segir hann.

Kaupverð Time Warner er um 85,4 milljarðar Bandaríkjadala, eða um tíu þúsund milljarðar íslenskra króna. Tilboð AT&T Inc. nemur um 105-110 dölum á hlut í Time Warner Inc.

Time Warner er m.a. eigandi sjónvarpsstöðvarinnar HBO og kvikmyndaframleiðandans Warner Bros. Undir hatti fyrirtækisins er einnig Turner-samsteypan, sem rekur m.a. sjónvarpsstöðina CNN.

AT&T er næststærsta fyrirtæki Bandaríkjanna á sviði farsímaþjónustu og er leiðandi á sviði fastlínutenginga. AT&T er einnig leiðandi á sviði kapal- og nettenginga auk breiðbandstenginga.

Nýjar leiðir í dreifingu

Ólafur segir stórt skref stigið með sölu fyrirtækisins. Time Warner einblíni á að koma efni sínu til leiðar með nýstárlegri hætti en áður og nýti til þess dreifikerfi AT&T.

„Þetta er samruni efnis og dreifingar. AT&T er stærst á sviði farsíma. Það er tímanna tákn að fólk er farið að nota símana miklu meira til að skoða efni og viða að sér einu og öðru, þar á meðal myndefni,“ segir hann.

„Þetta snýr að því að koma efni til fólks á sem margvíslegastan hátt, þ.e.a.s. að neytendur geti nálgast efnið. Þetta hafa verið vandkvæði hér og víðar í sjónvarpsbransanum. Hér í Bandaríkjunum eru um 90% heimila með áskrift að sjónvarpsefni gegnum kapaldreifingarfyrirtæki. Fyrirtæki hafa verið sein til að koma efninu þannig fyrir að neytandinn geti nálgast það í tölvum, símum, lestölvum o.s.frv.

Það sem vakir fyrir okkur er að neytandinn hafi tækifæri til að nálgast það efni sem hann hefur fest kaup á með hvaða hætti sem hentar, hvort sem neytandinn situr fyrir framan sjónvarpið heima hjá sér eða er einhvers staðar með farsímann á sér,“ bætir hann við.

Býst við að salan gangi í gegn

Ólafur segist ekki eiga von á öðru en að stjórnvöld samþykki samrunann, en t.a.m. þarf leyfi samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum til að svo geti orðið.

„Þetta eru auðvitað fyrirtæki sem eru ekki á sama sviði. Þetta er ekki ein sjónvarpsstöð að kaupa aðra eða eitt kvikmyndaver að kaupa annað. Hvað varðar samkeppnisyfirvöld er þetta mjög blátt áfram að því leyti,“ segir hann og vísar til kaupa dreifingarfyrirtækisins Comcast á NBC Universal árið 2013.

„Það fór auðvitað í gegnum skoðun eins og vera ber. Svo var það samþykkt með einhverjum skilyrðum. Við búumst ekki við öðru en að þetta muni allt ganga eðlilega fyrir sig,“ segir Ólafur Jóhann Ólafsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert