Taki pláss á eigin forsendum

Þórunn Sveinbjarnardóttir í pontu á samstöðufundinum á Austurvelli.
Þórunn Sveinbjarnardóttir í pontu á samstöðufundinum á Austurvelli. mbl.is/Golli

Kjarni kvenfrelsisbaráttunnar er að konur taki sér pláss á eigin forsendum í opinberu rými og samstaða kvenna getur flutt fjöll. Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), í ræðu á samstöðufundi á Austurvelli þar sem hún hvatti konur og karla til að standa hvert með öðru.

Þórunn sagði kvennafrídaginn áminningu og brýningu í samfélagi þar sem margir héldu að fullum árangri hefði þegar verið náð í jafnréttismálum og töluðu jafnvel um heimsmet í þeim efnum.

Kjarni kvenfrelsisbaráttunnar væri að konan tæki sér opinbert rými á eigin forsendum. Hún ætti hvorki að vera þræll afturhaldshugmynda né valdakerfis,sem hún hefði ekki búið til, heldur frjáls. Þess vegna væri kvenfrelsisbaráttan líka barátta minnihlutahópa fyrir sýnileika, virðingu og viðurkenningu í samfélaginu.

Reynsla undanfarinna áratuga hefði staðfest að ekkert kæmi af sjálfu sér. Rifjaði Þórunn upp að sókn kvenna í háskólamenntun hefði meðal annars verið möguleg vegna öldungadeilda og Lánasjóðs íslenskra námsmanna, fjölgun leikskóla hefði verið pólitískt forgangsmál, fæðingarorlof fyrir foreldra væri ávöxtur áralangrar baráttu og jafnlaunastaðallinn hefði verið forgangsmál á vinnumarkaði.

Á hverjum degi væru teknar ákvarðanir um kaup og kjör karla og kvenna í fyrirtækjum og stofnunum um allt land. Þetta væru ákvarðanir sem réðu ævitekjum fólks. Verkefni væri að tryggja að þær væru teknar á jafnréttisgrundvelli, sagði Þórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert