Fimmtán fluttir á Landspítalann

Rútan valt út af Þingvallavegi.
Rútan valt út af Þingvallavegi. mbl.is/Júlíus

Fjörutíu og tveir voru um borð í rútunni sem hafnaði utan vegar við Þingvallaveg á ellefta tímanum í morgun, en tilkynning um slysið barst lögreglu klukkan 10.18. Í tilkynningu ítrekar lögreglan að aðgerðir á vettvangi standi enn yfir. Þingvallavegur er áfram lokaður.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur rútan nú verið rétt við og til stendur að færa hana upp á veg bráðlega.

Leiðsögumaður og ökumaður rútunnar voru íslenskir en flestir farþeganna kínverskir. Hafa sendiráð viðkomandi ferðamanna verið upplýst um slysið.

Alls voru fimmtán kínverskir farþegar rútunnar sem fór út af á Þingvallarvegi fluttir á Landspítalann en ekki liggur fyrir hversu alvarleg meiðsl þeirra eru. Aðrir sem voru í rútunni, 27 talsins, voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Lögreglumenn aðstoða farþega sem var um borð í rútunni er …
Lögreglumenn aðstoða farþega sem var um borð í rútunni er hún valt. mbl.is/Júlíus

Beðið um að koma ekki á bráðamóttökuna

Rútan fór á hliðina upp úr klukkan tíu í morgun vestan undir Litla-Sauðafelli, skammt frá Skálafellsafleggjaranum. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð fljótlega eftir að tilkynnt var um slysið í morgun.

Aðgerðastjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur þá einnig verið virkjuð og Landspítalinn settur á gult viðbúnaðarstig. 

Lögreglan ítrekar að þeir sem kunni að hafa tekið upp farþega á svæðinu láti tafarlaust vita af því í síma Neyðarlínunnar 112. Lögreglan segir mjög áríðandi að þessar upplýsingar komi strax fram svo hægt sé að tryggja að allir sem voru um borð í rútunni séu komnir i leitirnar.

Vegna slyssins er fólk vinsamlegast beðið um að koma ekki á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi nema brýna nauðsyn beri til.

Frétt mbl.is: Fjórir fluttir á Landspítalann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert