Samstarfshópur á að fjölga leikskólakennurum

Leikskólabörn í Hafnarfirði. Borgaryfirvöld vilja leita leiða til að fjölga …
Leikskólabörn í Hafnarfirði. Borgaryfirvöld vilja leita leiða til að fjölga leikskólakennurum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Leita á leiða til að fjölga leikskólakennurum og bæta starfsumhverfi þeirra og verður sérstökum starfshópi komið á því skyni. Þetta var ákveðið á fundi skóla- og frístundaráðs í dag, en samþykktin felur í sér að efnt verður til formlegs samstarfs við félög leikskólakennara, háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneyti með það markmið að gera starf leikskólakennara eftirsóknarverðari.

Í fréttatilkynningu frá íþrótta- og tómstundasviði kemur fram að sérstök áhersla verði m.a. lögð á að fjölga karlkyns leikskólakennurum, auka umræðu um mikilvægi og inntak starfsins í samfélaginu og efla kennaramenntun þar með talið vettvangsnám.

Þá eigi einnig að skoða hvernig ná megi til þeirra sem hafa aflað hafa sér kennsluréttinda en síðan valið sér annan starfsvettvang en skólastarf.    

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum skóla- og frístundaráðs, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda í leikskólum, Félags foreldra leikskólabarna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands, þar með talið menntavísindasviðs og mennta- og menningarmálaráðuneytis, og fulltrúum skóla- og frístundasviðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert