Ala ófrjóan lax við Ísland

Frá fiskeldi á Vestfjörðum.
Frá fiskeldi á Vestfjörðum. Mbl.is/Helgi Bjarnason

Hefja á tilraunir til að ala ófrjóan lax í sjókvíum við Ísland. Ófrjói laxinn verður alinn samhliða frjóum lax við sömu aðstæður og á sama tímabili. Mikilvægt er að tilraun af þessu tagi fari fram hér á landi til að afla reynslu en erfitt er að segja til um hvort eldið sé framkvæmanlegt þar sem mörgum siðferðis- og markaðsfræðilegum spurningum er enn ósvarað.

Í tilkynningu frá Landssambandi fiskeldisstöðva (LF) kemur fram að tilraunin er samstarfsverkefni LF, Hafrannsóknarstofnunar, Háskólans á Hólum, Stofnfiskur og Arctic Fish. Stofnfiskur mun framleiða ófrjó hrogn fyrir verkefnið og mun Arctic Fish ala seiðin í samvinnu við Hólaskóla. Norway Royal Salmon (NRS) er nýr eignaraðili Arctic Fish en fyrirtækið hefur stundað álíkar rannsóknir í Noregi. Mun tilraunin hér á landi byggja á þeirri reynslu.

Undirbúningur er þegar hafinn og er nú verið að undirbúa hrogn sem klakin verða í byrjun næsta árs. Ef allt gengur eftir ættu fyrstu ófrjóu seiðin að vera tilbúin til sjósetningar sumarið 2018. Margar áskoranir eru þó við eldi ófrjórra laxfiska, m.a. vegna mikilla affalla á eldistímanum. Vansköpun er einnig nokkuð algeng á ófrjóum laxi og sýnir reynslan að hann er bæði viðkvæmari fyrir súrefnisskorti og hærri sjávarhita en frjór laxfiskur.

Seiðin verða alin í seiðastöð Arctic Fish í Tálknafirði og síðar í sjókvíum í Dýrafirði. Sjór á Vestfjörðum er almennt kaldari en víðast hvar annars staðar þar sem sjókvíeldi er stundað og því eru vonir bundnar við að hár sjávarhiti muni ekki hafa áhrif á eldið. Það er þó einn meginrannsóknarþáttur tilraunarinnar, ásamt mati á eldi ófrjórra laxa við íslenskar aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert