Brýnt að horfa ekki á sjálfan sig sem sjúkling

Kjartan Gunnarsson.
Kjartan Gunnarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér var auðvitað, af mínum ágæta lækni, gert það ljóst strax í upphafi að þetta væri sjúkdómur sem maður sæti uppi með og gæti því auðveldlega verið banvænn,“ segir Kjartan Gunnarsson lögfræðingur, en sl. mánudag flutti hann ávarp á fyrstu ráðstefnu International Myeloma Foundation sem haldin var í samvinnu við Perluvini, félag um mergæxli á Íslandi, Landspítala og Háskóla Íslands.

Kjartan greindist með mergæxli (e. myeloma) á frumstigi fyrir nokkrum árum, en um er að ræða illkynja fjölgun eitilfrumna í beinmerg sem hægt er að halda niðri með lyfjameðferð og í völdum tilfellum geislameðferð. Í ávarpi sínu sagði Kjartan frá eigin reynslu og kom þar m.a. fram að hann hefur náð sér vel af sjúkdómnum.

„Ég og mínir aðstandendur höfum verið heppin því mér hefur vegnað mjög vel og ég tekið vel á móti meðferðum,“ segir Kjartan. „Kannski er ég í einhverri allsherjar afneitun gagnvart sjúkdómnum, það getur vel verið, en ég hef frá fyrsta degi aldei litið á sjálfan mig sem sjúkling og aldrei talað um mig þannig, þó ég sé ófeiminn við að ræða sjúkdóminn og lýsa því sem ég hef þurft að fást við vegna hans. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að horfa á sjálfan sig ekki sem sjúkling, heldur sem einstakling sem er að ganga í gegnum eitthvað sem hann þarf að gera, getur tekist á við og getur náð árangri í.“

Kjartan segir fyrstu þrjú árin eftir greiningu hafa reynst honum erfiðust. „Mér fannst mér seint ætla að batna og var með böggum hildar yfir þessu. En eftir það finnst mér allt hafa gengið upp á við og frá 2014 finnst mér ég hafa náð mér fyllilega.“

Salurinn á Hilton Reykjavík Nordica var þéttsetinn þegar ráðstefna um …
Salurinn á Hilton Reykjavík Nordica var þéttsetinn þegar ráðstefna um mergæxli fór þar fram. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Umfangsmikil rannsókn að hefjast

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands, flutti einnig ávarp, en að sögn hans greinast árlega á bilinu 20-25 einstaklingar með mergæxli hér á landi.

„Einkenni sjúkdómsins eru yfirleitt blóðleysi, nýrnabilun, beinverkir og í sumum tilfellum of hátt kalkgildi í blóði,“ segir Sigurður Yngvi og bendir á að þrátt fyrir að um sé að ræða ólæknandi sjúkdóm hafi miklar framfarir orðið í meðferð hans að undanförnu. „Þannig má nefna að á síðasta ári voru þrjú ný lyf samþykkt sem stórauka lífslíkur sjúklinga.“

Um miðjan nóvember verður um 140 þúsund einstaklingum yfir fertugu boðið að taka þátt í rannsókn þar sem skimað verður fyrir forstigi mergæxlis með einfaldri blóðprufu. „Markmiðið er að rannsaka hvort ávinningur sé að skima fyrir forstigi mergæxlis svo hægt verði að greina og meðhöndla sjúkdóminn fyrr,“ segir Sigurður Yngvi.

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 25. október 2016.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert