Ítrekað brotið á mannréttindum barna

Samkvæmt nýjum útlendingalögum sem taka gildi um áramót má vista …
Samkvæmt nýjum útlendingalögum sem taka gildi um áramót má vista börn sem eru 15 ára og eldri með fullorðnum. AFP

Börn sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi eiga sömu mannréttindi og öll önnur börn hér á landi. Þau mannréttindi hafa þó ítrekað verið brotin. Það er óásættanlegt, segir í yfirlýsingu frá UNICEF á Íslandi og Rauða krossinum á Íslandi vegna barna á flótta sem koma hingað til lands.

„Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að berjast fyrir mannréttindum allra barna: Barna sem alin eru upp hér á landi, barna sem í neyð sinni leita til Íslands og barna sem búa við hörmungar erlendis. Eitt útilokar ekki annað og mun aldrei gera.

Með því að hjálpa til erlendis og hérlendis, á sama tíma – og með því að koma mannúðlega fram við þau börn og ungmenni sem leita eftir vernd á Íslandi – sýnum við í verki að við virðum mannréttindi. Börn heimsins eiga skýlausan rétt sem okkur ber að tryggja.

Stjórnvöld lögfestu Barnasáttmálann árið 2013 og gildir hann því sem lög á Íslandi. Í ljósi viðkvæmrar stöðu þeirra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi og þeirrar skyldu sem Barnasáttmálinn leggur á stjórnvöld, gera UNICEF á Íslandi og Rauði krossinn á Íslandi kröfu um að stjórnvöld uppfylli mannréttindi þessara barna,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert