Mikill viðbúnaður í Bryggjuhverfi

Mynd úr safni mbl.is.
Mynd úr safni mbl.is. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra í Bryggjuhverfi í gærkvöldi vegna tilkynningar um vopnaðan mann í hverfinu. Öllum leiðum inn og út úr hverfinu var lokað um tíma, samkvæmt upplýsingum frá íbúum í hverfinu.

Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að gærkvöldi hafi verið viðbúnaður vegna hótana og vopnaðs manns sem tilkynnt var um til lögreglu. Einn maður var handtekinn laust eftir miðnætti og er málið í rannsókn lögreglu, að sögn Kristjáns. 

Fréttatilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu - uppfært klukkan 12:10

„Fjölmennt lið lögreglu leitaði að karlmanni í Bryggjuhverfinu í Reykjavík í gærkvöld, eftir að íbúi þar tilkynnti um alvarlegar hótanir sem honum höfðu borist símleiðis auk þess sem tilkynning barst skömmu síðar um mann í hverfinu vopnaðan hnífi. Tilkynningarnar voru metnar alvarlegar og viðbúnaður lögreglu í samræmi við það. Fólust aðgerðir meðal annars í því að lokað var tímabundið fyrir umferð á svæðinu meðan leit stóð yfir. Sérsveit ríkislögreglustjóra var  enn fremur kölluð á vettvang.

Aðgerð lögreglu stóð yfir í ríflega þrjár stundir og lauk með handtöku á manni á þrítugsaldri, en sá  tilkynnti upphaflega um mann með hníf. Tilkynnandinn var óvopnaður. Hættuástandi var aflétt rétt ríflega eitt í gærkvöldi. Hinn handtekni bíður yfirheyrslu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert