Þingmenn skorti vilja til að bæta stöðu lögreglu

Lögreglufélag Austurlands skorar á frambjóðendur allra flokka að hefja nú …
Lögreglufélag Austurlands skorar á frambjóðendur allra flokka að hefja nú þegar vinnu við að endurreisa lögregluna á Íslandi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Mannekla, búnaðarskortur, fjárskortur og áralangt skilningsleysi gagnvart störfum lögreglu er ekki til komið vegna vankunnáttu stjórnmálamanna, heldur vegna viljaleysis þeirra til að bæta stöðu lögreglunnar,“ segir í harðorðri yfirlýsingu frá Lögreglufélag Austurlands, sem furðar sig á almennum vilja stjórnmálamanna til að veikja lögregluna á Íslandi.

Félagið skorar á frambjóðendur allra flokka við komandi alþingiskosningar að láta sig löggæslumál varða og hefja nú þegar vinnu við að endurreisa lögregluna á Íslandi. Félagið furðar sig á því sem það segir virðast vera almennan vilja stjórnmálamanna til að veikja lögregluna á Íslandi.

„Þessi vilji hefur endurspeglast í athöfnum og athafnaleysi síðustu ríkisstjórna vegna málefna lögreglu og dugleysi stjórnarandstöðu til að benda á hið augljósa,“ segir í áskoruninni.

Hvetur lögreglufélag Austurlands almenning „til að skoða stefnu eða stefnuleysi stjórnmálaflokkana í löggæslumálum áður en gengið er til kjörklefa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert