Bjargaði móður sinni frá drukknun

John Guðmundur Bergin.
John Guðmundur Bergin. Ófeigur Lýðsson

Að morgni miðvikudagsins 21. febrúar 1945 hæfði tundurskeyti frá þýskum kafbáti Dettifoss, skip Eimskipafélagsins, úti fyrir ströndum Írlands og sökk skipið á sjö mínútum. 45 manns voru um borð, 30 var bjargað úr sjónum en 15 týndu lífi. Dettifoss var eitt af síðustu skipunum sem þýskir kafbátar sökktu í seinni heimsstyrjöldinni.

Meðal þeirra sem björguðust var tæplega þrítug kona, Evgenía Jakobína Hallgrímsson Bergin, en þegar skipverjar á björgunarbáti komu að henni flaut hún á grúfu í sjónum og var í fyrstu talin af. Var það mál manna að bumban hefði líklega bjargað lífi hennar en Evgenía var barnshafandi. Hvorki móður né barni varð meint af volkinu og ól Evgenía heilbrigðan son fjórum mánuðum síðar.

Evgenía settist síðar að í Bandaríkjunum, en eiginmaður hennar, Samuel Bergin, var majór í Bandaríkjaher og ólst sonurinn, John Guðmundur, þar upp að mestu.

Hann var staddur hér á landi á dögunum til að fagna útgáfu nýrrar bókar, Ljósin á Dettifossi, eftir Davíð Loga Sigurðsson, en John lagði höfundi til upplýsingar við skrifin. Auk þess að herma af þessum voveiflega atburði rekur Davíð Logi sögu afa síns, Davíðs Gíslasonar, sem var stýrimaður á Dettifossi og þótti stíga af aðdáunarverðu fumleysi inn í atburðarásina eftir að tundurskeytið hæfði skipið. Heimildum ber saman um að Davíð hafi bjargað mörgum mannslífum en sjálfur varð hann hafinu að bráð þennan örlagaríka morgun.

John segir móður sína alla tíð hafa átt erfitt með að ræða þessa erfiðu lífsreynslu. Hún hafi augljóslega þjáðst af áfallastreituröskun en við því hafi engin ráð verið á þeim tíma. Lífið hélt bara áfram og þess var freistað að greiða úr flækjunum með þögninni. Hann er sannfærður um að móðir sín hafi aldrei komist að fullu yfir þetta.

„Ég man að mömmu var alltaf illa við vatn og fór til dæmis aldrei í sund enda þótt hún væri vel synd. Árið 1958 fluttum við, vegna starfa föður míns fyrir herinn, til Okinawa í Japan og þá lét mamma sig hafa það að sigla þangað frá Seattle. Þessi sigling var henni afar erfið og ekki bætti úr skák að klósettið í káetunni okkar stíflaðist á leiðinni og vatn flæddi yfir gólfið. Mamma varð að vonum mjög skelkuð en sýndi aðdáunarvert hugrekki. Það er engin leið að gera sér grein fyrir því hvernig henni var innanbrjósts,“ segir John.

Nánar er rætt við John Guðmund í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

John Guðmundur og Davíð Logi Sigurðsson við leiði Davíðs Gíslasonar …
John Guðmundur og Davíð Logi Sigurðsson við leiði Davíðs Gíslasonar í Fossvogskirkjugarði. Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert