„Fjallið tók jóðsótt

Formenn þeirra sjö stjórnmálaflokka sem eru með yfir 5% fylgi …
Formenn þeirra sjö stjórnmálaflokka sem eru með yfir 5% fylgi voru í fyrri leiðtogaþætti RÚV. Skjáskot/RÚV

„Við getum ekki talað fyrir aðra flokka ef þeir óska ekki eftir því,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í leiðtogaumræðum formanna stjórnmálaflokkanna í Ríkissjónvarpinu nú í kvöld. Birgitta var innt eftir ástæðum þess að engar niðurstöður voru kynntar eftir samræður stjórnarandstöðuflokkanna undanfarna daga.

„Það var óskað eftir að við færum ekki í að kynna ítarlega niðurstöður fundanna,“ sagði hún og kvað það þó „stórkostlegt að geta boðið upp á blokk líkt og gert hafi verið á Norðurlöndunum.“ Ekki sé hins vegar mögulegt að fallast á málamiðlun um að stjórnarskráin verið ekki kláruð á næsta kjörtímabili.

„Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður framsóknarflokksins, og átti þar við samræður stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra um samstarf sín á milli.

„Það hefur ekkert heyrst annað,“ sagði hann. „En hér eru allir þessir flokkar og Viðreisn að tala um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið, á sama tíma og stórveldið Bretland er að ganga út.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði það liggja fyrir að ekki væri hefð fyrir kosningabandalögum í íslenskum stjórnmálum. Það kom þó út úr þessu vilji til að vinna saman og stóru línurnar snúast um að við viljum leggja áherslu á breytt vinnubrögð og uppbyggingu innviða.“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, benti á að flokkurinn væri miðjuflokkur og þyrfti að koma sínum áherslumálum í gegn.

Spurð hvort ekki væri glapræði fyrir Samfylkinguna að fara í ríkisstjórn líkt og staðan væri í dag, sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður flokksins, að það væri ábyrgðalaust að taka ekki slíkt samtal.

„Mér finnst að flokkar sem mælast milli 5-10% eigi að gangast við því að það eru óróatímar í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og sagði vissulega langsótt að flokkurinn færi í stjórnarsamstarf með Pírötum, þó hann útilokaði það ekki. „Mér finnst þeir ekki tilbúnir að taka ábyrgð og tel þá þess vegna ekki burðuga til að leiða ríkisstjórn.“ Það sé hins vegar gott að það liggi fyrir fyrir morgundaginn að vinstri flokkarnir vilji mynda blokk og vinna saman. „Eða menn fara í alvöru vinnu við að byggja upp innviðina.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði mestu máli skipta um hvað málefnaleg samstaða náist. „Við útilokum engan fyrirfram. Það verða allir að vera tilbúnir að vinna saman sem ein heild. Ég held að við getum unnið með öllum þessum flokkum og að Viðreisn geti verið flokkur sem geti laðað það besta fram í þeim öllum.“

Leiðtogar fimm flokkanna voru samþykkir því að því að þjóðin væri spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu sína til áframhaldandi umræðna um Evrópusambandsaðild. Birgitta, Oddný, Óttarr, Katrín og Benedikt voru öll sammála um að málið ætti heima í  þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Við viljum ekki ganga í ESB, en við erum til í að hlusta á þjóðina,“ sagði Katrín. „Þetta snýst fyrst og fremst um lýðræði og að hlusta á almenning. Við erum til í að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, af því að við erum ekki hrædd við að hlusta á þjóðina.“

„Það verður að vera þingvilji og ríkisstjórn á bak við það,“ sagði Bjarni. „Sá sem boðar breytingarnar og vill leiða þær verður vera sá sem ber þær áfram.“ Ekki sé þó hægt að vera á móti því að ræða slíkt.

Sigurður Ingi sagði stjórnvöld hafi slitið aðild, en fýsti að vita hvort Katrín væri til í að spyrja þjóðina nei eða já spurningar um ESB-aðild.

„Ég er opin fyrir því að spurningarnar séu fleiri en ein,“ sagði Katrín og kvaðst bæði vilja leita leiðsagnar um hvort sækja eigi um aðild og eins að spurt verði um afstöðu með almennari hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert