Flugfélagið sýknað af kröfu flugfreyju

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flugfélag Íslands var í gær sýknað af kröfu flugfreyju sem sagt var upp störfum hjá félaginu. Flugfreyjan taldi að með uppsögninni væri vegið að æru hennar og uppsögnin væri ólögmæt. Krafðist hún þess að fá greiddar 1,5 milljónir króna í bætur. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á kröfur flugfreyjunnar og taldi að uppsögnin hefði ekki verið ólögmæt. Eins hefði ekki verið vegið að æru eða persónu flugfreyjunnar með því hvernig staðið var að uppsögninni. Því væru ekki skilyrði fyrir greiðslu bóta til flugfreyjunnar.

Flugfreyjan hóf störf hjá Flugfélagi Íslands árið 2006 en var sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti í mars 2015. Í uppsagnarbréfi kemur fram að ástæða uppsagnarinnar væri trúnaðarbrestur í framhaldi af atviki sem átt hafi sér stað í febrúar. 

Að sögn flugfreyjunnar hafi hún farið í venjubundið flug og um borð í umrætt sinn hafi verið eftirlitsflugfreyja sem tekið hafi út störf hennar um borðSamkvæmt úttektarblaði hafi verið gerðar athugsemdir við það að flugfreyjan væri ekki með hatt og jakka meðferðis en ekki hafi verið fundið að störfum hennar.

Um það bil tveimur vikum síðar var hún boðuð á fund hjá mannauðsstjóra Flugfélagsins, en auk hennar var yfirflugfreyja á fundinum og mætti flugfreyjan þar ásamt trúnaðarmanni Flugfreyjufélags Íslands. Tilefnið var atvik sem upp kom fyrir fyrrnefnt flug en þar hafði hún, andstætt reglum, tekið að sér tæplega fimm ára barn í flugi þar sem hún var starfandi flugfreyja um borð. Hún hafi bókað barnið og greitt fyrir það, en til þess hafi þó ekki komið að hún tæki ábyrgð á barninu þar sem eftirlitsflugfreyja hafi tekið það að sér.

Nokkru eftir fundinn var flugfreyjan boðuð á fund flugrekstrarstjóra  og lauk þeim fundi með því að henni var afhent uppsagnarbréf og tilkynnt að frekara vinnuframlags hennar væri ekki óskað. Flugfreyjan hafði ekkert flogið fyrir Flugfélag Íslands frá fyrri fundinum þrátt fyrir að nafn hennar væri á skrá yfir flugfreyjur sem ættu að vera að fljúga á þessu tíma. 

Taldi flugfreyjan að uppsögnin hefði verið framkvæmd á harkalegan og særandi hátt. Hún hefði verið til þess fallin að skaða starfsheiður hennar og skýrt brot á gagnkvæmri trúnaðar- og tillitskyldu starfsmanns og vinnuveitanda.

Flugfreyjan hafi fengið vinnuskrá fyrir marsmánuð sem hafi verið í höndum fjölmargra starfsfélaga hennar og hafi hún sinnt vinnuskyldum sínum allt til 3. mars 2015. Frá þeim tíma hafi hún verið tekin af flugum sínum án útskýringa. Slík vinnubrögð vinnuveitanda séu ámælisverð og til þess fallin að skaða starfsheiður hennar og æru. Illa hafi verið staðið að uppsögninni í alla staði og henni gert erfitt um vik að starfa áfram við ferðaþjónustu sökum stöðu Flugfélags Íslands á þeim markaði, segir í greinargerð flugfreyjunnar fyrir dómi.

Samkvæmt dómi héraðsdóms á flugrekstrarstjórinn að hafa farið yfir það með flugfreyjunni að viðhorf hennar gerði það að verkum að frekara samstarf væri í raun útilokað. Það að axla ekki ábyrgð á umræddu atviki væri áhyggjuefni og ylli trúnaðarbresti, en ekki atvikið sjálft. 

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að ástæðan fyrir uppsögninni var tilgreind í uppsagnarbréfinu og var hún trúnaðarbrestur sem varð í framhaldi af atviki sem átti sér stað í febrúar.

Ekki var óskað vinnuframlags flugfreyjunnar á uppsagnar­fresti en hún fékk laun allan þann tíma. Mannauðsstjóri Flugfélags Íslands bar fyrir dóminum að alla jafna væri reynt að leysa fólk undan störfum hjá félaginu á uppsagnarfresti. Þá kom fram hjá yfirflugfreyju að ekki væri tilkynnt um það sérstaklega þegar starfsmenn væru teknir af vinnuskrá og að algengt væri að kalla þyrfti til afleysingar af ýmsum ástæðum án þess að það þyrfti að vekja sérstaka athygli annarra starfsmanna.

Ekki er fallist á að ólögmætt hafi verið af hálfu félagsins að leysa flugfreyjuna undan starfsskyldum á uppsagnarfresti. Heldur ekki að það hafi verið óþarflega harkalegt og til þess fallið að skaða starfsheiður hennar og æru, þótt hún hafi verið sett á vinnu­skrá fyrir mars 2015, að leysa hana undan starfsskyldum frá og með þriðja þess mánaðar.

„Með vísan til alls þessa verður að telja að stefnandi hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að uppsögn hennar eða önnur háttsemi stefnda í tengslum við hana hafi verið ólögmæt. Fól uppsögnin og það hvernig að henni var staðið ekki í sér ólögmæta meingerð gegn æru eða persónu stefnanda. Þar með eru ekki skilyrði fyrir því að til bótaskylda stefnda hafi stofnast gagnvart stefnanda. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert