Fullir dagpeningar 25.700 krónur

Fullir dagpeningar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands verða 25.700 krónur frá og með 1. nóvember nk. Er þeirri upphæð ætlað að mæta kostnaði vegna gistingar og fæðis í einn sólahring.

Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins en það er svokölluð ferðakostnaðarnefnd sem ákveður upphæð dagpeninganna.

Fyrir gistingu í einn sólahring eru greiddar 14.500 krónur, 11.200 krónur fyrir fæði hvern heilan dag, minnst 10 tíma ferðalag, og 5.600 krónur fyrir fæði í hálfan dag, minnst 6 tíma ferðalag.

„Dagpeningar þessir gilda frá og með 1. nóvember 2016. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing nr. 1/2016 dags. 27. maí 2016.

Nefndin fer þess á leit við ráðuneyti og stofnanir að viðmiðunarfjárhæðir um greiðslur dagpeninga um gistingu og veitingar verði kynntar starfsfólki.

Athygli er vakin á að meginreglan er að greiða skal kostnað vegna ferðalaga innanlands, s.s. fargjöld, fæði og gistingu, eftir reikningi. Viðmið ferðakostnaðarnefndar eru hámarksupphæðir vegna greiðslu slíkra reikninga,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert