Ökumaðurinn kominn fram

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók bifreið af gerðinni Ford Escape á fjórtán ára pilt á vespu framan við Fífuna í Kópavogi klukkan 14.20 mánudaginn 24. október. Lögreglu var tilkynnt um slysið daginn eftir en þá var pilturinn farinn að kenna sér eymsla, auk þess sem vespan er skemmd. Ökumaðurinn, kona, ræddi við piltinn á vettvangi og tók niður nafn hans, kennitölu og símanúmer en hefur ekki enn haft samband. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Bætt við klukkan 12:49

Ökumaðurinn, sem lýst var eftir í gær vegna umferðarslyss við Fífuna í Kópavogi sl. mánudag, hefur gefið sig fram.

„Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.

Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000.

Upplýsingum um málið má sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið thora.jonasdottir@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert