Reyna að bera kennsl á líkið

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra reynir að bera kennsl á líkið.
Kennslanefnd ríkislögreglustjóra reynir að bera kennsl á líkið. mbl.is/Árni Sæberg

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra reynir nú að staðfesta af hverjum líkið var sem fannst við Selatanga skammt frá Grindavík að morgni miðvikudags.

Frétt mbl.is: Líkfundur við Selatanga

Að sögn Jóhannesar Jenssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum, er niðurstöðu ekki að vænta fyrr en eftir dálítinn tíma.

Í samskiptum við frönsku lögregluna

Lögreglan er í upplýsingasamskiptum við frönsku lögregluna, í gegnum alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, vegna málsins.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á miðvikudag merki frá neyðarsendi frönsku seglskútunnar Red Hélol, sem hafði verið saknað frá því í sumar. Sendirinn fannst svo í fjöru austur af Hópsnesi við Grindavík.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann neyðarsendinn.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fann neyðarsendinn.

Fundu líkamshluta og lík

Líkamshluti og lík fundust í fjörunni við Selatanga á svipuðum slóðum og samdægurs, að sögn Jóhannesar.

Hugsanlega er líkið af skipstjóra skútunnar, Joseph Le Goff, 63 ára Frakka sem lagði einn síns liðs af stað úr höfn í Porto í Portúgal 7. júlí. Förinni var heitið til Asoreyja. Ekkert hafði spurst til skútunnar fyrr en neyðarboð bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Að sögn Jóhannesar hafa fundist lítil brot úr skútunni og virðist hún „hafa farið alveg í spón“.

Lögreglan hefur ekki farið um svæðið í dag en það verður gert síðar. Björgunarsveitin Þorbjörn mun sjá um leitina að braki skútunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert