Umfjöllunin skaðaði ímyndina

Þátt­ur Gurrý­ar sem fjall­aði um plöntu­vernd var tek­inn af vef …
Þátt­ur Gurrý­ar sem fjall­aði um plöntu­vernd var tek­inn af vef RÚV.

Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun hafi beðist afsökunar á mistökum þegar hún gerði opinberlega athugasemdir við garðyrkjuþáttinn „Í garðinum með Gurrý“ í sumar höfðu ásakanirnar ímyndarlegan skaða í för með sér, segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV. Þátturinn verður sýndur áfram í framtíðinni.

Umhverfisstofnun krafðist þess að þáttur úr þáttaröðinni „Í garðinum með Gurrý“ með þáttastjórnandanum Guðríði Helgadóttur yrði tekinn úr sýningu eða honum breytt svo hann stæðist reglur um vörukynningu í sumar. Frétt um það birtist á vefsíðu stofnunarinnar í júní.

Frétt Mbl.is: Vilja Gurrý í garðinum úr sýningu

Ástæðan var sú að í honum var fjallað um tvær tegundir sem var ætlað að berjast gegn skaðvöldum í garðinum. Aðra þeirra var óheimilt að selja og dreifa á Íslandi en hina var óheimilt að markaðssetja sem plöntuverndarvöru. Um var að ræða efnin Permasect 25 EC og Blautsápa.

RÚV brást við með því að fjarlægja þáttinn sem um ræddi úr Sarpinum, efnisveitu RÚV þar sem hægt er að nálgast þætti sem þegar hafa verið sýndir á sjónvarpsrás þess.

Frétt Mbl.is: Gurrý fjarlægð af vef RÚV

Á þriðjudag birti Umhverfisstofnun hins vegar afsökunarbeiðni á vefsíðu sinni þar sem kom fram að krafa um breytingar á þættinum hefði verið felld niður. Umfjöllun stofnunarinnar á sínum tíma hefði verið ótímabær, hún hefði komið illa við hlutaðeigandi og bæðist stofnunin velvirðingar á því. Málinu væri lokið af hálfu hennar.

Í samtali við Mbl.is segir Gunnlaug Einarsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, að krafan hafi verið felld niður þar sem ekki hafi verið um vörukynningu að ræða og vörurnar því ekki auglýstar í þættinum. Mistökin hafi verið að birta frétt á meðan málið var enn til skoðunar.

Frétt Mbl.is: Ótímabær umfjöllun um Gurrý

„Við erum með vottað gæðakerfi með ferlum. Það kemur ekki í veg fyrir að það séu gerð mistök. Við erum í raun að segja að það hafi verið mistök að hafa birt fréttina í júní. Við erum manneskjur og gerum mistök og vildum bara leiðrétta þau. Málinu er í rauninni lokið,“ segir hún en upphaflega fréttin var fjarlægð af síðu Umhverfisstofnunar í júlí.

Hefðu viljað að málið væri skoðað betur

Mbl.is reyndi að ná tali af dagskrárgerðarmanninum Guðríði en hún var ekki í aðstöðu til að veita viðtal strax. Skaphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir málið hafa verið óheppilegt, bæði fyrir viðkomandi dagskrárgerðarmann og þáttaröðina sem slíka.

„Það er nokkuð sem menn vildu helst geta komist hjá og hefðu viljað að málið yrði skoðað betur og RÚV hefði haft kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina áður en málið var gert opinbert. Þó svo að það berist þarna afsökunarbeiðni er þetta ímyndarlegur skaði. Eftir því sem við komumst næst mun Umhverfisstofnun ekki aðhafast meira í málinu,“ segir Skarphéðinn.

Hann segir engan sérstakan skaða hafa verið af því að taka þáttinn út Sarpinum á sínum tíma en þátturinn verði hér eftir endursýndur með eðlilegum hætti þegar þar að komi.

Frétt Mbl.is: Um mannleg mistök að ræða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert