Gjöf til minningar um Jenný Lilju

Frá afhendingu gjafarinnar í dag.
Frá afhendingu gjafarinnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hjónin Gunnar Lúðvík Gunnarsson, bóndi, og Rebekka Ingadóttir, hjúkrunarfræðingur, afhentu Landhelgisgæslunni í dag gjöf til minningar um litlu dóttur sína, Jenný Lilju Gunnarsdóttur sem lést af slysförum á Einiholti í Biskupstungum í október 2015, aðeins 3 ára gömul.

Gunnar og Rebekka stofnuðu sjóð til minningar um dóttur sína og ákváðu að færa þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands veglega gjöf úr minningarsjóðnum að upphæð einni milljón króna.

Gjöfin er í formi Vscan Dual Probe-ómtækis (ultrasound). Tækið mun gera þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar kleift að greina mun betur en áður ástand sjúklinga, ekki síst barna, sem oft geta ekki tjáð sig með sama hætti og fullorðnir um hvað amar að, sérstaklega ef um innvortis eymsli er að ræða, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

„Með þessari veglegu gjöf vilja Gunnar, Rebekka og fjölskylda þeirra þakka þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fyrir aðkomuna og alla aðstoð,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert