Tók stökkið og lét drauma sína rætast

Lilja Gunnlaugsdóttir listakona hefur vakið athygli en hún selur bæði …
Lilja Gunnlaugsdóttir listakona hefur vakið athygli en hún selur bæði silkiklúta sína í Bandaríkjunum og hlaut mikið lof fyrir hálsmenið Þoku. Hún framleiðir allt sjálf og á myndinni má sjá úrval verka hennar.

Lilja Gunnlaugsdóttir listakona venti kvæði sínu í kross fyrir þremur árum, hætti í vinnunni og sneri sér alfarið að listinni. Hún stofnaði fyrirtækið Skrautmen og hannar og framleiðir silki- og roðhálsklúta, hálsmen og fleira.

Hún vakti athygli á vörusýningunni NY Now í New York á dögunum þar sem hálsmenið hennar, Þoka, var valið úr 1.800 nýjum vörum í úrslitaflokk.

Þetta var ótrúlega súrrealískt. Ég trúði því varla fyrst þegar ég fékk markpóst sem sendur var til kaupendanna á sýningunni þar sem mátti sjá mína vöru við hliðina á Iittala-kertastjökum. Þetta var allt frekar magnað,“ segir Lilja Gunnlaugsdóttir listakona, en hún vakti athygli á vörusýningunni NY Now sem haldin er í New York á hverju ári en hálsmenið hennar Þoka var þar valið úr 1.800 vörum í sérstakan úrslitaflokk þar sem aðeins 25 vörur komust að.

„Þó ég hafi ekki staðið uppi sem sigurvegari var frábært að komast í úrslitaflokkinn. Hálsmenið varð fyrir vikið vinsælasta varan mín á sýningunni og ég fékk nýja viðskiptavini og styrkti tengslin við aðra,“ bætir Lilja við en hálsmenið er handgert úr handmáluðum trékúlum og roði. Hún framleiðir einnig vinsæla silkiklúta úr þvottheldu laxaroði og eru þeir þegar til sölu í þremur sérvöruverslunum í Bandaríkjunum og einni í Finnlandi. Þá er hægt að nálgast allar vörur hennar hérlendis í vefverslun á www.skrautmen.com.

Lét drauminn rætast

Lilja sneri sér alfarið að listinni og stofnaði fyrirtækið Skrautmen árið 2014 en þar áður starfaði Lilja sem sérfræðingur í gagnagreiningu hjá Gallup. Hún söðlaði því um stuttu eftir að hún flutti aftur á heimaslóðirnar í Skagafirðinum með manni sínum og börnum. „Ég horfði á fólkið í kringum mig sem var að taka stökkið og láta drauma sína rætast og ég hugsaði, af hverju ætti ég ekki líka að geta það? Ég vissi líka að ég myndi alltaf sjá eftir því ef ég myndi ekki prófa þannig að ég ákvað þetta bara,“ segir Lilja en henni hafi frá barnsaldri alltaf þótt gaman að gera eitthvað í höndunum. „En mér gekk alltaf vel í skóla og fannst því liggja beinast við að fara í háskólanám,“ bætir hún við en þar menntaði hún sig sem félagsfræðingur með diplómu í gagnagreiningu.

Fer langt á þrjóskunni

„Ég er búin að fara langt á þrjóskunni en það þarf mikla þrautseigju til að stofna svona lítið fyrirtæki,“ segir Lilja en hún hafi farið út í verkefnið að yfirlögðu ráði og því áætlað næstu fimm ár fram í tímann. „Ég gerði markaðs- og rekstraráætlun og plan þar sem ég gerði ráð fyrir að það myndi ekki verða hagnaður á þessum fyrstu tveimur árum.“

Hún framleiðir allar vörurnar sjálf og hefur þurft að ráða verktaka til að anna eftirspurninni. Markmiðið er þó að geta ráðið starfsmann til að standa að framleiðslunni með henni. „Það fór allt á fullt að afgreiða pantanir sem ég fékk að utan þegar ég kom heim eftir sýninguna en salan jókst sömuleiðis hér heima. Síðan er jólasalan komin á fullt núna líka svo það er líf og fjör á vinnustofunni þessa dagana,“ segir Lilja en öll framleiðslan fer fram í Skagafirðinum þar sem hún býr rétt utan við Sauðárkrók.

Staðsetningin kemur þó ekki að sök þar sem flestir birgja hennar eru erlendis og því notar hún netið til að eiga samskipti við þá. Það er Lilju mikið kappsmál að halda framleiðslunni í heimabyggð til að hún geti lagt sitt af mörkum við að styrkja atvinnulífið á staðnum.

Styrkt á vörusýninguna

„Það er líka margt sem kemur upp á sem maður býst aldrei við og gerir því ekki ráð fyrir,“ segir hún létt í bragði og nefnir vörusýninguna NY Now sem dæmi. „Sýningin kom svolítið upp í hendurnar á mér þegar vinkona mín sem er búsett í Bandaríkjunum benti mér á að sækja um og ég ákvað að slá til. Umsóknarferlið er mjög strangt og mikil vinna sem tengist allri umsókninni. Þegar því er lokið hefst síðan gríðarleg vinna við markaðsefni og þess háttar því annars er hætt við að maður týnist í fjöldanum. Ég fór í fyrsta skipti í fyrra en var svo boðið að koma aftur í ár og fékk til þess styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands,“ bætir hún við en gífurlegur kostnaður fylgi þátttökunni eða tæplega tvær milljónir. Það var Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem styrkti Lilju í fyrra skiptið. „Þetta var mikil áhætta að fara út og vita ekki hvort eitthvað fengist út úr þessu eða ekki.“

Pennavinkona innan handar

Þegar Lilja fór út á fyrri vörusýninguna árið 2015 hafði hún með í för vörur sem hún hafði þegar hannað og framleitt en í seinna skiptið langaði hana að koma með eitthvað nýtt inn á sýninguna. Hún hafði þegar fengið hugmyndina að hálsmeninu Þoku og ákvað að taka það út og skrá það í keppnina um bestu nýju vöruna.

Spurð hvernig hún hafi farið úr gerð silkiklútanna yfir í skartgripi segist hún hafa farið að husga hvort ekki væri hægt að nota roðið í skartgripi einnig og þaðan hafi hugmyndin svo þróast áfram. „Ég var að tala við vinkonu mína, Mai, frá Kína eitt kvöldið þegar hún bauðst til að kenna mér að mála timbur með aldagamalli kínverskri aðferð, svokallaðri skýjamálningu,“ segir Lilja en Mai hafi svo kennt henni aðferðina í gegnum Skype og hún nýtt hana áfram til að búa til hálsmenið. „Þaðan kemur þessi flotta skýjaáferð á timburkúlurnar í hálsmeninu – engar kúlur eru eins.“

Hún og Mai hafa þekkst í áraraðir en þær byrjuðu sem pennavinkonur eftir að mamma Lilju hvatti hana til að finna sér eina slíka til að æfa sig að skrifa á ensku. „Ég fann Mai í Æskunni, sem var og hét, og við byrjuðum sem pennavinkonur og höfum verið vinkonur síðan – í gegnum bréf, tölvupósta, Skype og Facebook,“ segir hún en það vill einnig til að Mai rekur fjölskyldufyrirtæki rétt utan við Hong Kong í Kína, sem gerir silki. „Ég kaupi svo silkið sem ég nota í klútana af henni,“ bætir hún við létt í bragði.

Umhverfisvænar vörur

Allar vörur Lilju er vottaðar fyrir grænni orku en hún notar grænt rafmagn, umhverfisvænt roð og gætir að því hvaðan trékúlurnar í hálsmenið koma. Textílvörurnar kaupir hún einnig í gegnum „fair trade“. „Ég vil frekar stuðla að bættu viðskiptaumhverfi og eyða aðeins meiri pening í það og hafa vörurnar dýrari en hafa þar af leiðandi meiri gæði að baki,“ segir hún en í Bandaríkjunum sé þetta afar eftirsóttur eiginleiki vara

Næstu skref hjá Lilju eru að halda ótrauð áfram á þeirri braut sem hún hefur markað sér og stefnir hún á að stækka fyrirtækið. Nýjar vörur eru væntanlegar á næsta ári en hún hefur nýlega sett á markað bindisnælur fyrir karlmenn og er það fyrsta vara hennar sem er sniðin að karlmönnum.

„Ég er mest í klútunum eins og er en svo getur alveg komið yfir mig einhver andi. Ég reyni að vera skipulögð en er ótrúlega hvatvís á sama tíma,“ segir hún létt í bragði. Lilja á von á barni í janúar á næsta ári en mun sinna framleiðslunni samhliða. „Það hægir kannski aðeins á vextinum en ég ætla ekki að stoppa.“

Bindisnælurnar með roði eru fyrsta vara Lilju fyrir karlmenn.
Bindisnælurnar með roði eru fyrsta vara Lilju fyrir karlmenn.
Silkiklútar með þvottheldu laxaroði.
Silkiklútar með þvottheldu laxaroði.
Hálsmenið Þoka hlaut mikla athygli.
Hálsmenið Þoka hlaut mikla athygli.
Lilja býr einnig til textílvörur.
Lilja býr einnig til textílvörur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert