Fyrirtæki víkja fyrir nýrri byggð

Björgun ehf. hefur yfir að ráða stóru landsvæði við Elliðavog. …
Björgun ehf. hefur yfir að ráða stóru landsvæði við Elliðavog. Þar er dælt á land efni sem skip félagsins afla á hafsbotni í Faxaflóa. Þar er einnig efnissala fyrirtækisins. mbl.is/RAX

Fyrirhuguð er mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis á Ártúnshöfða og við Elliðavog á næstu árum. Þar hafa nokkur fyrirtæki verið með starfsemi um áratuga skeið en þau þurfa nú að víkja. Flest tengjast þau byggingariðnaði og framkvæmdum, þ.e. efnissalar, malbikunarframleiðandi og steypustöðvar.

Björgun ehf. er eitt þeirra fyrirtækja sem þurfa að flytja starfsemi sína. Björgun ritaði i sumar bréf til Reykjavíkurborgar þar sem kannaðir voru möguleikar þess að fyrirtækið fái lóð undir starfsemi sína í Álfsnesi.

Hinn 11. október sl. voru undirritaðir samningar milli Faxaflóahafna sf. og Björgunar ehf. um rýmingu fyrirtækisins af lóð þess á Ártúnshöfða. Fyrirtækið fær að vera með starfsemi á svæðinu til loka maímánaðar 2019. Þar er m.a. geymt byggingarefni sem sanddæluskip félagsins dæla af hafsbotni.

Málið er í raun ekki komið lengra að sögn Lárusar Dags Pálssonar forstjóra Björgunar. „Við töldum grundvallaratriði að kanna til hlítar hvort Reykjavíkurborg hefði áhuga á samvinnu um staðarval áður en við færum í kostnaðarsamar forathuganir á svæðum sem mögulega kæmu svo alls ekki til greina af hálfu borgaryfirvalda,“ segir Lárus Dagur.

Horft til Gunnuness

Björgun ehf. hefur áhuga á nýrri staðsetningu í jaðri eða innan borgarmarkanna. Í bréfinu vildi fyrirtækið kanna áhuga borgarinnar á að Björgun og borgin ynnu sameiginlega að forathugun og söfnuðu saman fyrirliggjandi upplýsingum hvort staðsetning vestarlega á Álfsnesi væri mögulegur kostur fyrir framtíðarstaðsetningu Björgunar. Hér er um að ræða svæði á Gunnunesi innst í Kollafirði, nálægt og neðan við sorpurðunarsvæði Sorpu.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur dags. 31. október sl. en í umsögninni er ekki lagst gegn því að þessi staðsetning verði skoðuð nánar.

„Þar með er ljóst að við munum leggja mikla áherslu á að skoða þennan möguleika nánar í samvinnu við Reykjavíkurborg með tilliti til innviða og þeirra aðstöðusköpunar sem þarf að framkvæma því óneitanlega er starfsemi Björgunar mjög sérhæfð og sérstök hvað varðar löndun skipa á sand- og malarefnum,“ segir Lárus Dagur.

Engin hafnarmannvirki eru til staðar á Álfsnesi. Varðandi hafnargerð eða löndunaraðstöðu telur Lárus Dagur að hún þurfi ekki að vera umfangsmikil, fyrst um sinn amk. „Í dag löndum við á hálfgerðri flotbryggju á Ártúnshöfða sem er gamall skipskrokkur. Dælingin við löndun er gerð í gegnum dælubúnað skipsins. En það þarf rörabúnað og slíkt í landi í Álfsnesi.“

Lárus Dagur segir að bréfinu hafi einnig verið bent á Geldinganes sem mögulegan framtíðarstað, en sá möguleiki var m.a. nefndur í nýlegri skýrslu Eflu, sem fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu. Um þennan kost var ekki fjallað í umsögn skipulagsfulltrúa.

Björgun ehf. er sögufrægt fyrirtæki, stofnað 11. febrúar árið 1952. Reksturinn snerist í upphafi um björgun strandaðra skipa og er nafn félagsins þannig til komið. Fyrsta verkefni félagsins var að vinna að niðurrifi flutningaskipsins Clam sem strandað hafði á Reykjanestá. Meðal stofnenda félagsins var Kristinn Guðbrandsson en hann var helsti sérfræðingur landsins í björgun strandaðra skipa og í raun þjóðsagnapersóna fyrir þau afrek, eins og segir réttilega á heimasíðu fyrirtækisins.

Árið 1954 eignaðist Björgun sitt fyrsta dæluskip sem hlaut nafnið Leo og var það fyrsti vísir að breyttri starfsemi félagsins. Björgun starfaði við Vatnagarða til ársins 1976 þegar fyrirtækið flutti starfsemi sína að Sævarhöfða.

Steypustöðin og BM Vallá verða áfram með starfsemi á Ártúnshöfða. Það er talið heppilegt á meðan uppbygging stendur yfir á svæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert