ÖBÍ veitti hvatningarverðlaun

Allir þeir sem hlutu tilnefningu ásamt Lilju Þorgeirsdóttur, framkvæmdastjóra ÖBÍ, …
Allir þeir sem hlutu tilnefningu ásamt Lilju Þorgeirsdóttur, framkvæmdastjóra ÖBÍ, Sigrúnu Birgisdóttur, formanni undirbúningsnefndar Hvatningarverðlauna ÖBÍ, og Ellen Calmon, formanni ÖBÍ. Ljósmynd/Silja Rut

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands voru veitt í tíunda sinn við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum en einnig voru veittir styrkir til íþróttafólksins sem keppti á Ólympíumóti fatlaðra í Brasilíu í september.

Verðlaunagripurinn var hannaður af Þórunni Arnadóttur vöruhönnuði en í tilkynningu frá Öryrkjabandalagi Íslands segir að megintilgangur verðlaunanna sé „að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla.“

Í flokki einstaklinga fékk Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, verðlaun fyrir störf sín í þágu fólks með þroskahömlun og aðstandenda þeirra.

Í flokki fyrirtækja og stofnana var það verslunin Next (Dagsól ehf.) sem fékk verðlaun fyrir metnaðarfulla starfsmannastefnu en um 20% af starfsmönnum fyrirtækisins eru með skerta starfsgetu.

Í flokki umfjöllunar eða kynningar fékk hreyfingin Tabú verðlaun fyrir fræðslu og markvissa umfjöllun um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu.

Þá fengu Helgi Sveinsson spjótkastari, Jón Margeir Sverrisson sundmaður, Sonja Sigurðardóttir sundkona, Thelma Björg Björnsdóttir sundkona og Þorsteinn Halldórsson bogfimimaður styrki frá Öryrkjabandalaginu en bandalagið ákvað í haust að styrkja ólympíufarana fimm um samtals eina milljóna króna.

Verðlaunahafar Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2016. Fv. Friðrik Sigurðsson, Embla Guðrúnar Ágústsdóttir …
Verðlaunahafar Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2016. Fv. Friðrik Sigurðsson, Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Þorbera Fjölnisdóttir frá Tabú og Árni Sv. Mathiesen frá Dagsól ehf./Next Ljósmynd/Silja Rut
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert