Slökkvilið flutti logandi gám í malarnámu

Akureyri.
Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Raki komst í álþynnuafganga sem voru í gámi við Akureyrarhöfn með þeim afleiðingum að eins konar eldur með ljósum reyk steig þaðan upp.

Gámurinn var frá fyrirtækinu Hringrás en álþynnuafgangarnir eru frá fyrirtækinu Becromal á Akureyri.

Að sögn Hólmgeirs Þorsteinssonar, varaslökkviliðsstjóra hjá Slökkviliði Akureyrar, er ekki hægt að slökkva eld sem þennan með vatni en rakinn sem myndaðist veldur ákveðinni efnafræðilegri keðjuverkun. Reynt var að slökkva hann með froðu en það gekk ekki.

Á endanum var ákveðið að flytja gáminn út í malarnámu fyrir utan bæinn þar sem átti að sturta úr honum og dreifa úr efninu.

Hólmgeir segir efnið vera hreint og því er ekki um iðnaðarúrgang að ræða. Í framhaldinu átti að koma efninu aftur upp í gám og fara með það rétta leið í endurvinnslu.

Töluverður mannskapur tók þátt í útkallinu, sem kom klukkan 11.40, og þurfti að kalla út tvær aukavaktir til að sinna því, enda voru nokkrir sjúkraflutningar í gangi á sama tíma.

Gámurinn sem um ræðir stóð uppi á öðrum gámum á svæði austan við Eimskipafélagshúsið og gekk nokkuð greiðlega að ná honum niður með gámalyftara.

„Það var aldrei mikil hætta á ferðum hvorki fyrir menn né umhverfi en þetta var ekki hættulaust ástand. Ef þetta hefði fengið að grassaera áfram hefði þetta orðið að einhverju báli,“ segir Hólmgeir.

Spurður hvers vegna rakinn komst í álþynnuafgangana segist hann telja að segldúkur sem var yfir gáminum hafi ekki dugað til að halda raka í burtu. Efnið sem um var að ræða hefði átt að vera í rakafríu umhverfi og því hafi ekki verið gott að hafa segldúkinn þar yfir. „Menn horfa á þetta sem rusl sem getur ekki kviknað í en þegar í þetta kemst raki út af veðri er þetta ekki ósvipað og að kveikja í heyi,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert