Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti þrjá

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti einstakling til Ísafjarðar í gærkvöldi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti einstakling til Ísafjarðar í gærkvöldi. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson

Mikið annríki hefur verið hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar en TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar hefur farið í tvö sjúkraflug síðasta hálfa sólahringinn.

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, flaug í gærkvöldi til Ísafjarðar til að sækja þangað alvarlega veikan einstakling. 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni rúmlega átta í gærkvöldi. Fyrst hafði verið óskað eftir sjúkraflugvél Mýflugs en veðuraðstæður svo slæmar og því ekki fært fyrir vélina.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að á flugleið hafi verið töluverð ókyrrð, slæmt skyggni og þó nokkur ísing. Á Ísafirði var sjúklingurinn fluttur um borð en auk hans var ákveðið að flytja annan sjúkling frá Ísafirði sem þurfti að komast undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlan lenti í Reykjavík rétt eftir miðnætti.

Í frétt RÚV kemur fram að viðkomandi hafi fengið aðsvif og misst meðvitund meðan hann ók bifreið eftir Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði. Þar segir einnig að farþega í bifreiðinni hafi tekist að forða árekstri og útafakstri.

Í sjúkrabíl í átt að Borgarfjarðarbrú

Klukkan rúmlega sex í morgun barst svo stjórnstöð beiðni um þyrlu vegna veiks einstaklings í Stykkishólmi. Þyrlan fór í loftið um hálfsjö og var komin á vettvang um tuttugu mínútum síðar, að því er kemur fram í tilkynningu Landhelgisgæslunnar. 

Sjúklingur hafði þá verið fluttur með sjúkrabíl í átt að Borgarfjarðarbrú til móts við þyrluna. Umtalsverð skýjahæð og þoka var á leiðinni svo fljúga þurfti lágt meðfram ströndu en flugið gekk eftir sem áður vel, samkvæmt tilkynningunni.

Lent var með sjúklinginn um tuttugu mínútur yfir sjö í morgun við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert