11 stiga hiti í nótt

Búast má við snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi framan af degi og hvössum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Mýrdal á morgun. Reikna má með hálkublettum á vegum á Norður- og Austurlandi með kvöldinu, segir í athugasemd vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Í dag blæs fremur hæg suðaustlæg átt á landinu með smá skúrum sunnan- og vestalands. Skýjahulan, sem liggur yfir Norður- og Austurlandi, hverfur að mestu þegar líður á daginn. Hlýtt var á öllu landinu í nótt og mældist 11 stiga hiti á nokkrum stöðum á Vestfjörðum. Hitinn er þó á niðurleið seinni partinn og frystir í innsveitum fyrir norðan og austan í kvöld og nótt.

Á morgun nálgast lægðardrag sunnan úr hafi og hvessir þá af austri og fer að rigna sunnan og vestan til.
Reikna má með snörpum vindhviðum undir Eyjafjöllum og í Mýrdal seinni partinn. Þurrt verður norðaustanlands megnið af morgundeginum, en mögulega lítilsháttar væta um kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðaustlæg átt, 8-13 m/s og smá skúrir, en léttir til á N- og A-landi. Vaxandi austanátt og þykknar upp á morgun, 13-20 og rigning eða súld S- og V-lands síðdegis, hvassast með S-ströndinni. Annars mun hægara og þurrt að kalla. Hiti 3 til 8 stig í dag, en kólnar síðan og frystir í innsveitum NA-til kvöld. Hlýnar aftur seint á morgun.

Á þriðjudag:
Hæg austanátt og skýjað með köflum í fyrstu, en síðan 10-15 m/s og fer að rigna S- og V-lands, talsverð úrkoma þar seinni partinn. Hiti víða 2 til 7 stig, en vægt frost í innsveitum NA-til.

Á miðvikudag:
Austan 8-13 m/s og víða talsverð rigning, en sums staðar slydda N-lands. Snýst í sunnan 5-8 og styttir upp S-lands síðdegis. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag:
Norðaustankaldi og slydda eða snjókoma fyrir norðan, en mun hægari og úrkomulítið syðra. Hiti víða 0 til 5 stig.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir ákveðna austan- og norðaustanátt með talsverðri rigningu eða slyddu, einkum A-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert