Fjársvelta lögreglu vantar milljarða

Lögreglustjórafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í dag.
Lögreglustjórafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í dag. mbl.is/Júlíus

Við erum að vekja athygli þingheims á stöðu lögreglunnar á Íslandi. Þetta er ágætistímasetning til að vekja athygli á málaflokknum,“ segir Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að fimm milljarða vanti í fjárveitingar til viðbótar við þá ellefu sem nú eru á fjárlögum.

„Það vantar mikið upp á ef vel á að vera. Við erum að tala um fimm milljarða til að koma lögreglunni á mjög góðan stað,“ segir Úlfar og bendir á að það liggi í augum uppi að það vanti fleiri lögreglumenn til starfa:

„Lögreglumenn eru 70 færri í febrúar 2016 en þeir voru í febrúar 2007 og fer enn fækkandi. Á meðan fjölgar Íslendingum og stærðirnar í ferðageiranum eru allt aðrar.

Inni í fjárlögum næstu fjögurra ára stendur til að kaupa þrjár þyrlur fyrir samtals níu milljarða króna. „Okkar upplýsingar eru helst þær að það sé lítið sem ekkert fjármagn til löggæslumála og ég hef heyrt þetta líka; að það standi til að fjárfesta í þremur þyrlum,“ segir Úlfar en hann vill ekkert segja til um hvort peningarnir sem fara í þyrlukaupin hefðu annars verið notaðir til löggæslumála:

„Það er ráðuneytisins að svara því.“

Yfirlýsing frá Lögreglustjórafélagi Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert